Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:12:00 (650)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir traustið sem hann hefur á mér. Hann má vita það og þingmenn almennt að ég mun fara gætilega í þessu máli, en ég tel það fyrst og fremst skyldu mína að gæta hagsmuna lánasjóðsins sem hefur ekki verið gert á undanförnum árum. Það er viðfangsefni ríkisstjórnarinnar að koma því máli svo fyrir að framtíð lánasjóðsins sé tryggð.
    Ég er líka sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að öll þekking sem menn verða sér úti um nýtist þótt menn starfi kannski ekki beint í því fagi sem þeir hafa lært til. Ég er sammála þessu. ( GHelg: Þingmenn eru nú gott dæmi um það.) Já, já, þeir eru gott dæmi um það, það er alveg rétt.
    Mér þykir hins vegar leitt ef ég hef ekki svarað spurningum hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur nægilega skýrt. Hún taldi sig hafa fengið lítil svör. Ég held að í ræðu minni megi lesa svör við öllum hennar meginspurningum. Ég get hins vegar tekið strax fram, vegna þess að hv. þm. óskaði sérstaklega eftir svari við þeirri spurningu hvort ég liti á námslán sem hver önnur önnur lán, að það geri ég ekki. Einnig kom það skýrt fram í mínu máli þegar ég ræddi um hugmyndir sem ég gæti hugsað mér að festa á blað þegar rætt væri um hvernig meginmarkmiðum lánasjóðslaganna skyldi náð. Ég talaði þar sérstaklega um að það skyldi felast í fyrsta lagi í rétti manna í tiltekinn afmarkaðan tíma til þess að njóta lánafyrirgreiðslu á sérkjörum frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Þetta þýðir auðvitað að lán eru ekki veitt þaðan með venjulegum hætti, með einhverjum venjulegum markaðsvöxtum. Ég nefndi líka styrkjakerfið. Í þriðja lagi nefndi ég möguleika á lánum þegar lengra væri komið í námi sem bæru einhverja vexti. Ég vona því að þetta sé alveg ljóst.
    Ég vona að einnig sé ljóst að ég er ekki að varpa frá mér neinni ábyrgð þótt ég hafi sagt að ég muni ekki gefa væntanlegri nefnd nákvæm fyrirmæli um það hvernig lagafrv. hún skuli semja. Ég treysti mér alveg út af fyrir sig til þess að semja frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna, jafnvel við eldhúsborðið heima hjá mér eins og einn ágætur fyrrv. og genginn þm. gerði um frægan lagabálk. Ég treysti mér alveg til þess, en ég tel það bara ekki réttu leiðina. Þess vegna er það að ég mun skipa nefnd til að vinna úr þeim hugmyndum sem þegar eru komnar fram, annars vegar frá nefndinni sem Guðmundur Magnússon veitti forstöðu og hins vegar frá samtökum námsmanna. Ég geri ráð fyrir að úr fleiru megi vinna, þar á meðal þessum ágætu umræðum sem farið hafa fram hér í dag. Það tel ég vera viðfangsefni nefndarinnar, að fara rækilega í gegnum þessa umræðu. Það finnst mér eðlilegt.
    Ég vona að menn viti það líka að auðvitað er hafin vinna við þetta mál allt saman. Það er ekki eins og við séum á einhverjum byrjunarreit. Það er alls ekki svo. Menn þekkja auðvitað þetta mál og menn vita hvar það er statt. Það hafa verið lagðar fram ýmsar hugmyndir, eins og ég sagði áðan, og úr þessum hugmyndum verður unnið. Ég sé satt að segja ekki ástæðu til að ætla að slík vinna þurfi að taka einhvern óratíma. Auðvitað er með hægt að tefja málið ýmsum ráðum og það er ekkert auðveldara en að tefja það jafnvel út allt þetta þing, eins og kom fram í máli eins ræðumannsins, og hann vonaðist jafnvel til þess. Ein ágæt leið til þess er einmitt að tilnefna í nefndina fulltrúa frá öllum stjórnmálaflokkunum og frá öllum hugsanlegum hagsmunasamtökum. Þar hittum við áreiðanlega á leiðina sem dugar til þess að fresta þessu máli alveg út þetta þing. Það er hins vegar ekki leiðin sem ég hugsa mér að fara, alls ekki.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir vitnaði enn í skýrslu Ríkisendurskoðunar, en það er ekki lesið nægilega langt. Það kemur alveg ljóslega fram sem ég gat um í minni fyrri ræðu í dag að það var mat ríkisstjórnarinnar, miðað við að fjárveiting þyrfti að vera 66% af námsstuðningnum, að það þyrfti að verja 3.600 millj. kr. af ríkisfé til að sjóðurinn væri á sléttu. Svona er þetta. Ef mönnum þykir það í lagi, ef meiri hluti er fyrir því í þinginu, er það ákvörðun út af fyrir sig sem ég nefndi líka í fyrri ræðu minni, að þingið gæti tekið ákvörðun um þetta og þingið þarf auðvitað að taka ákvörðun. Það er ekki mín skoðun að meirihlutafylgi sé við slíkt fjárframlag hér á Alþingi en kannski veð ég þar í villu. Á það mun eflaust reyna.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson kom víða við í sinni ræðu og gerði nokkurt mál úr þeirri skerðingu sem ákveðin var í vor með reglugerðarbreytingunni. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem ég hef áður sagt um hvers vegna þessi ráðstöfun var gerð. Við vorum að draga úr þeirri umframfjárþörf sem við blasti þá og töldum okkur hafa gert það nægjanlega miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir og ákváðum um leið að leggja til við Alþingi að 400 millj. kr. yrði bætt við frá því sem ákveðið var í fjárlögum yfirstandandi árs og sú tillaga er þegar komið fram í fjáraukalagafrv. Ég gat þess líka í fyrri ræðu minni að því miður voru þessar upplýsingar ekki réttar, því miður. Það liggur fyrir að enn er viðbótarfjárþörf allt að 300 millj. kr. Við alþingismenn komum til með að standa frammi fyrir því hvernig við eigum að leysa þann vanda. Þar eru aðeins tvær leiðir til, að bæta við þessa tillögu til fjáraukalaga eða taka meiri lán, ýta vandanum sem sagt áfram á undan sér eins og hefur verið gert. Ég tel það ekki skynsamlega leið. Ég vil að það komi fram strax.
    Vegna þess að talað hefur verið um af fleiri en einum þingmanni að samtök stúdenta hafi rétt fram sáttarhönd og ekki megi slá á hana ætla ég mér ekki að gera það. Ég vonast eindregið til þess að við getum náð samstöðu við stúdenta um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru og ég met það við stúdenta að þeir hafa gert sér grein fyrir því að lánasjóðurinn er í vanda. Þeir hafa sagt það beinum orðum og mér þykir það góðs viti að slíkar yfirlýsingar komi fram.
    Það er alveg rétt líka sem hér hefur komið fram í umræðunni að stúdentar lögðu fram sparnaðartillögur þegar í sumar. Þeir gerðu það. Því miður treysti stjórn lánasjóðsins sér ekki til að fallast á þær tillögur, fyrst og fremst vegna þess að þær gengu eingöngu í þá átt að draga úr fjárþörfinni á yfirstandandi ári, sem sagt fram að áramótum, en vandinn að öðru leyti skilinn eftir. Stjórn lánasjóðsins taldi ekki rétt að fara þá leið, heldur að ganga lengra. Ég ítreka það hins vegar enn og aftur að ég met það við stúdenta að þeir skuli gera sér grein fyrir þessu og eru tilbúnir til þess að taka þátt í að athuga leiðir til að ráða fram úr þessum vanda.
    Ýmislegt fleira kom fram í ræðu hv. þm. Finns Ingólfssonar sem ástæða er til að fara aðeins yfir. Hann nefndi nokkur þeirra atriða sem koma fram í hugmyndum nefndarinnar sem ég skipaði í sumar, bæði styttingu endurgreiðslutímans, hugmyndirnar um vextina og að endurgreiðsla hæfist strax einu ári eftir námslok í stað þriggja nú. Mér heyrðist á hans máli að hann hafnaði í raun og veru öllum þessum hugmyndum. Hann nefndi að vísu möguleika á að taka vexti af lánum síðar á greiðslutímanum, ef ég hef skilið hann rétt, og það er út af fyrir sig hugmynd sem ástæða er til að kanna nánar. Mér finnst einhvern veginn að í máli hv. þm., sem hér hafa talað og gert þessar hugmyndir nefndarinnar að umræðuefni, sé hugmyndum nefndarinnar yfirleitt hafnað.
    Þá sé ég ekki annað eftir en kannski það sem kom nokkuð skýrt fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar. Hann nefndi þrjár leiðir sem menn stæðu frammi fyrir, ég held að ég hafi tekið rétt eftir, í fyrsta lagi að hækka framlag ríkissjóðs, í öðru lagi að ríkið yfirtæki lánin sem hvíldu á lánasjóðnum og í þriðja lagi að ríkið greiddi vextina af lánum sem sjóðurinn hefur tekið. Mér finnst þetta satt að segja allt saman vera orðaleikur. Allt þýðir þetta það sama. Það þýðir einfaldlega að það þurfi að hækka framlög ríkissjóðs. Svo nefndi hann að vísu fjórðu leiðina, að lækka útlán LÍN, sem ég býst ekki við að hann sé að leggja til. Allt ber því að sama brunni í máli hv. þm. sem hér hafa talað. Það er hærra ríkisframlag. Ekki trúi ég að menn séu í raun og veru að leggja til áframhaldandi lántökur á háum vöxtum og vaxtalaus útlán og ýta enn vandanum á undan sér. Það vita allir að það leiðir til ófarnaðar og ég trúi því ekki að það séu í raun og veru tillögur hv. þm. sem hafna þeim hugmyndum sem hér hafa verið til umræðu.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagði í sinni ræðu að hann teldi það hafa verið lagabrot hjá fyrrv. menntmrh. Ragnhildi Helgadóttur að skerða lánin svo sem þá var gert. Ég ætla ekki að leggja dóm á það. Ég held ekki. En ég spyr á móti: Er það virkilega svo, ætlar Alþingi að sætta sig við það að ráðherra menntamála í þessu tilfelli hafi alveg ótakmarkaðan rétt til að breyta reglugerðum, hækka námslán eftir einhverjum hugdettum sem koma í kollinn á hæstv. ráðherra þá og þá stundina, án þess að hafa nokkra heimild frá Alþingi og sjáandi það að verið sé að stofna lánasjóðnum í hættu? Er það virkilega svo að menn eigi að hafa þessa heimild? Ég held að það hafi verið í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar sem efi kom fram um að ráðherra ætti að hafa þessa heimild. Er það ekki rétt? Ég er alveg sammála hv. þm. Ég held að það eigi að takmarka þessar heimildir. Þær eru varhugaverðar, sérstaklega ef þær eru notaðar eins og hefur verið gert. Það er miklu betra, öruggara --- ( FI: Á hvorn veginn sem er?) Já, já, við skulum alveg segja það, á hvorn veginn sem er. Ég sagði í fyrri ræðu minni í dag að við þyrftum að koma þessari löggjöf um námsaðstoð þannig fyrir að námsmenn mættu vita að hverju þeir gengju en ekki væri alltaf verið að hræra í þessu og breyta. Ég er alveg sammála því. Það er meginmarkmið að koma löggjöfinni þannig fyrir að námsmenn og ég tala nú ekki um þingmenn viti hvernig þessi mál standa.
    Já, það var býsna athyglisvert að heyra í hv. þm. Svavari Gestssyni og raunar líka í hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur þegar þessir hv. þm. tala um vanda sjóðsins. Það er sem sagt ekkert tiltökumál í hugum þessara hv. þm. að ríkið yfirtaki skuldirnar. Það var dálítið skondin hugmynd sem kom fram hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að lánasjóðurinn ætti fremur heima hjá félmrh. Ég er alveg sammála því ef á að haga sér svona. Ef á að haga sér svona er þetta bara nokkuð góð hugmynd, að hafa þetta hjá félmrh. Það er sem sagt ekkert tiltökumál að ríkið yfirtaki skuldirnar og þannig höguðu hæstv. ráðherrar sér í síðustu ríkisstjórn. Þeir bjuggu til alls konar sjóði sem framtíðin á eftir að finna fyrir og við erum þegar farnir að finna fyrir. Það var ekkert tiltökumál fyrir ríkisstjórnina síðustu að yfirtaka skuldir Orkubús Vestfjarða. Nei, það var ekkert tiltökumál. Þetta er félagsleg aðgerð eins og það heitir og alveg sama er með lánasjóðinn. Þegar búið er að koma honum í þá stöðu sem hæstv. fyrrv. ráðherra gerði á að koma eftir eitthvert árabil og segja: Auðvitað á ríkið að yfirtaka skuldirnar, vitanlega. Og kannski er það eina leiðin þegar búið er að koma þessu svona fyrir.
    Ég held að kannski sé ekki ástæða fyrir mig að vera að lengja þessa umræðu mikið. Eitt fannst mér dálítið athyglisvert. Ég vona að ég hafi misskilið hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson þegar hann var að tala um þá skyldu sem er lögð á námsmenn nú, að gefa upp húsaleigu, að þeir greiði húsaleiguna. Er það virkilega svo að eitthvað sé óeðlilegt við það? Ég

veit að stúdentum þykir það ekki óeðlilegt, ég veit það. Auðvitað eiga allir að gefa upp húsaleigu, hver einasti maður sem hana greiðir og líka þeir sem taka við henni. Það vita allir að á þessu er misbrestur. En ef þingmenn ætla að fara að mæla því bót að lög séu þannig brotin, þá er illa komið fyrir okkur.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð í þessu máli nú. Við eigum auðvitað eftir að ræða málefni lánasjóðsins frekar á þessu þingi og ég vona og ég treysti því að sú umræða fari fram nú á haustþingi. Mér er alveg ljóst að það er skammur tími til stefnu. Mér er það alveg ljóst. Ég vona hins vegar að það takist að undirbúa málið með fullnægjandi hætti til þess að gera skömmum tíma og það komi til umræðu sem allra fyrst að nýju. Þá munum við ræða það, þ.e. þegar frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna verður lagt fram.
    Ég vil svo að lokum þakka fyrir ágæta umræðu. Auðvitað kemur fram nokkur áherslumunur í máli manna. Það er eðlilegt. Ég tel hins vegar að þessi umræða hafi verið gagnleg. Hún er gagnleg fyrir það starf sem fram undan er við undirbúning og framlagningu frv. um þetta mikilvæga efni.