Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:29:00 (651)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Út af orðum hæstv. menntmrh. áðan, af því að hann misskildi mína ræðu, vil ég að skýrt sé hvað ég átti við í mínum tillögum og ætla þess vegna að fara aðeins betur yfir það.
    Ég fjallaði sérstaklega um þrjú atriði í þessum hugmyndum nefndarinnar og það er rétt hjá hæstv. menntmrh. að ég hafnaði þeim öllum. Það þýðir ekki að ég hafi hafnað öðrum hlutum sem koma fram í nefndarálitinu og held ég að þeir séu 10 eða 12 til viðbótar. Finnst mér rétt að skoða margt af því sem þar er. Ég hafna því hins vegar algjörlega að vextir séu settir á námslán af því að ég fann það að menntmrh. misskildi það í mínum málflutningi.
    Tillaga mín til menntmrh. er þessi: Í fyrsta lagi að hann skipi nefnd sem námsmenn, stjórnarandstaða og ríkisstjórn eiga aðild að til þess að koma á sátt um lánasjóðinn.
    Í öðru lagi er endurheimtuhlutfall sjóðsins vandamálið og markmiðið með endurskoðun laganna þarf að vera það að hækka endurheimtuhlutfallið, ná inn sem næst 100% af því sem sjóðurinn hefur lánað út. Það tel ég að sé hægt að gera með því að tvískipta endurgreiðslunni, þ.e. að fyrstu 25 árin séu tekjutengd og þá gæti ég vel hugsað mér að hækka mætti tekjutengingarprósentuna úr 3,75% í 4,5% þannig að tekjutengingin yrði enn sterkari en hún er í dag. Að þessum 25 árum liðnum yrði allt lánið gjaldfellt og eftirstöðar yrðu vaxtalausar áfram sem jafngreiðslulán til 15 ára.
    Í þriðja lagi tek ég undir þá tillögu hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar að lán til þeirra Íslendinga sem starfa erlendis verði gjaldfelld, endurgreiðslur þar verði hertar og vextir settar á lánin. Þetta tel ég vera skynsamlegt, ekki síst í ljósi þess hvernig menn líta á vextina sem hluta af framlagi ríkisins til menntamála.