Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:32:00 (652)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Hæstv. menntmrh. var ekki viss hvort hann hefði skilið mig rétt og honum til upplýsingar vil ég geta þess að ég las hér upp orðrétt athugasemdir sem fram höfðu komið frá nemendum við Háskóla Íslands. Þeir spurðu ekki hvað væri rangt eða rétt, þeir gátu aðeins um afleiðingarnar af tiltækinu. Sjálfum er mér fullkunnugt um það hvað er rætt, hæstv. menntmrh., þegar menn semja um leigu á húsnæði. Það er mér fullkunnugt um. Ég taldi ástæðulaust annað en að koma því á framfæri einfaldlega vegna þess að ég hygg að hæstv. menntmrh. megi eiga orðastað við sína kjósendur í nokkuð ríkum mæli

ef hann ætlar að fara að tala um það sem einhvern stórglæp, sem víða er tíðkað á höfuðborgarsvæðinu, að leiga fyrir húsnæði er ekki rétt gefin upp. Þetta er opinberlega vitað og hæstv. menntmrh. veit þetta fullvel. Í það minnsta er þá mjög mikið oflof í því sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur borið á hann ef þetta er eitthvað sem hann hefur ekki áttað sig á.