Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:34:00 (653)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er eins gott þegar þessir ráðherrar eru annars vegar að menn séu ekki búnir að tala sig dauða þegar umræðum lýkur, þegar ráðherrar ljúka umræðum með samfelldum árásum á ræðumenn sem áður hafa talað. Þess vegna er eins gott að ég á korter eftir til þess að svara ýmsum þeim atriðum sem fram komu í máli hæstv. menntmrh. og ódrengilegum málflutningi hans, alveg ótrúlega ódrengilegum.
    Hæstv. ráðherra veltir því fyrir sér hver eigi að borga og menn segi af hálfu Alþb.: Við látum okkur þetta í léttu rúmi liggja þó að ríkissjóður þurfi að borga fyrir Orkubú Vestfjarða og RARIK og Lánasjóð ísl. námsmanna og guð veit hvað. Með þessu er hæstv. ráðherra auðvitað að gefa það í skyn að okkur sé nákvæmlega sama um það hvaðan hlutirnir koma, hvað þeir kosta og það megi eyða, sóa og spenna eins og hverjum og einum dettur í hug. Ég vísa þessum málflutningi að sjálfsögðu algjörlega á bug, og það er meira, ég segi: Hann er ódrengilegur vegna þess að hæstv. menntmrh. á auðvitað að þekkja það eins og aðrir hér hvernig alþýðubandalagsmenn hafa haldið á málum, bæði að því er varðar stjórn ríkisfjármálanna og að því er varðar stjórn einstakra sveitarfélaga sem ég gæti rakið fyrir hæstv. ráðherra við tækifæri.
    Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, ég tel að Sjálfstfl. sé ekki aflögufær varðandi leiðbeiningar um yfirstjórn ríkisfjármála eða fjármála t.d. sveitarfélaganna, eins og þess sveitarfélags sem við erum stödd í, Reykjavík. Ég vísa því þessum vinnubrögðum og þessum yfirlýsingum hæstv. menntmrh. algjörlega á bug. En ég segi við hann, eins og ég er oft búinn að segja áður í þessari umræðu, Hvað á að gera? Og ég svara því svona: Þar koma margar leiðir til en setjum nú svo að fyrrv. menntmrh. hafi verið sá örlagavitleysingur sem hæstv. núv. menntmrh. ber á mig aftur og aftur. Er þá rétt að hefna þess eingöngu á námsmönnum? Er rétt að leggja þá pinkla sem fyrri stjórn skilur eftir sig eingöngu á námsmenn? Ég segi nei. Ég tel að sú nálgun málsins af hálfu núv. menntmrh. sé siðlaus með öllu vegna þess að auðvitað er hér um að ræða sameiginlegan vanda þjóðarinnar allrar hverjum svo sem um er að kenna. En núv. menntmrh. sér engin önnur hugsanleg fórnarlömb í þessu máli en námsmenn. Það eru þeir sem eiga að bera pinklana. Það er þessi nálgun sem ég tel að sé fyrir neðan allar hellur.
    Ég tel, eins og ég benti á áðan, að margar leiðir séu til varðandi það að taka á fjárhagsmálum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég hef bent á þann möguleika að yfirtaka eitthvað af skuldum lánasjóðsins eins og oft hefur verið gert varðandi félagsleg fyrirtæki og sjóði af ýmsu tagi og þessum hæstv. ráðherra hefur ekki þótt tiltökumál á öðrum sviðum þó að hann sjái ofsjónum yfir því að því er varðar Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Ég tel líka hugsanlegt að auka framlög til sjóðsins með beinum hætti. Ég tel líka hugsanlegt að lengja lán sjóðsins og skuldbreyta þeim og létta þannig greiðslubyrði hans. Á allt þetta benti ég, en ég sagði líka í fyrri ræðu minni í dag: Það er auðvitað hægt að gera ýmsar ráðstafanir til að takmarka útlán. Og hvernig á að takmarka útlán? T.d. með þeim hætti að tekjutengingin verði brattari, tekjutillitið verði brattara en það er núna. En hvað gerði þessi hæstv. ráðherra í málinu í sumar? Hann skar niður námslánin flatt en breytti tekjutillitinu þannig að það kom hátekjunámsmönnum sérstaklega til góða og undir þetta skrifaði Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Svo kemur þessi hæstv. ráðherra og belgir sig yfir okkur þingmönnum fyrir það að hann sé sá eini sem viti og kunni í þessum málum. Það sem hann veit og kann er greinilega eitt. Hann kann að skera niður flatt og hann kann að leggja vandann á lágtekjunámsfólk og sérstaklega konur sem eru í námi.
    Ég tel að þessi vinnubrögð séu fyrir neðan allar hellur, en ég hafði ekki hugsað mér að fara að stökkva á hæstv. ráðherra í þeim umræðum sem hér fara fram heldur reyndi ég að leggja mitt mál upp með málefnalegum hætti í umræðunum fyrr í dag. Hæstv. ráðherra telur sig hins vegar þess umkominn, eftir allt það sem hann hefur afrekað í þessum málum með sérstökum árásum á lágtekjunámsmenn, að stökkva á einstaka þingmenn með þeim hætti sem hann gerði áðan í lok umræðunnar, með ódrengilegum hætti.
    Hæstv. menntmrh. sér enga aðra leið en að leggja þetta allt á námsmenn. Það er niðurstaða umræðunnar í dag. Það er eini hópurinn sem hann telur að sé í raun og veru aflögufær. Það eru hin breiðu bök Sjálfstfl., námsmenn. Hæstv. ráðherra hefur t.d. ekki minnst á þann möguleika sem fram kom í kattarþvottarræðu hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að hugsanlega mætti hafa brattari endurgreiðslur eftir tekjum. Ég er 100% sammála því. Ég er jafnaðarmaður í orði og í verki. Það er munur eða það sem sagt verður um suma sem eru stundum að glenna sig hér í þingsalnum en koma ótrúlega sjaldan í ræðustólinn miðað við hvað þeir voru gleiðir hér fyrr á öldinni.
    En auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að hægt er að ná inn tekjum og styrkja Lánasjóð ísl. námsmanna með því að breyta endurgreiðslunum þannig að þeir sem hafa miklar tekjur borgi meira. Auðvitað. Þetta höfum við verið að tala um. En hæstv. menntmrh. sér þetta ekki. Hans eina lausn er sú að leggja þetta á námsmenn á grundvelli ójafnaðarstefnu þessarar ríkisstjórnar.
    Svo kemur hæstv. menntmrh. og leyfir sér að halda því fram að menn hafi verið að breyta lánunum í blóra við vilja Alþingis. Það er auðvitað fullkomlega rangt. Ég tel að í þessum efnum hafi menn auðvitað haft fullan stuðning Alþingis að lokum þó að það þyrfti að snúa suma niður með handafli, eins og formann Alþfl., til að styðja þá stefnu sem fyrrv. ríkisstjórn fylgdi í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það var gert og það handafl var til. Auðvitað var mönnum þetta ljóst. Ég vil hins vegar taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni, 11. þm. Reykv. ef ég man rétt. Auðvitað er það út af fyrir sig umhugsunarefni hvað ráðherrann hefur rúmar heimildir samkvæmt lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég tel að þær heimildir séu of rúmar. Ég tel að þær séu hættulega rúmar á þeim tímum þegar íhaldsmenn sitja í menntmrn. Reynslan af þeim er slæm. Allt er þá þrennt er. Nú heita þeir Ragnhildur, Sverrir og Ólafur, hæstv. ráðherrar. Reynslan af þeim öllum er slæm. Sönnunin liggur fyrir. Ég tel þess vegna að það sé rétt og skynsamlegt að takmarka heimildir ráðherra í lögunum. Ég tel að það sé skynsamlegt.
    Síðan segir hæstv. ráðherra að það sé alltaf verið að hræra í lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og það sé slæmt fyrir námsmenn. Þetta er rangt. Það liggur ekki þannig í málinu. Staðreyndin er sú að engir hafa í raun og veru hrært í þessum lögum nema þessir þremenningar sem hafa gegnt þessu starfi af hálfu Sjálfstfl. Að öðru leyti hafa menn verið að framkvæma þessi lög eins og þau voru sett á sínum tíma.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég tel að þessi umræða hafi fyrst og fremst sýnt það að núv. menntmrh. og ríkisstjórn sjá bara eina lausn á vanda Lánasjóðs ísl. námsmanna og hún er sú að skerða kjör námsmanna. Þessir menn sjá enga aðra lausn.
    Ég vil taka þetta fram fyrir hönd míns flokks: Ég hef engan áhuga á að Alþb. taki þátt í nefnd sem vinnur eftir þeim forskriftum sem hæstv. núv. menntmrh. ætlar að gefa. Ég segi hins vegar: Ef menn eru tilbúnir til að reyna að stuðla að þjóðarsátt um Lánasjóð ísl. námsmanna, hvort sem það er allra flokka og námsmanna eða annarra, erum við tilbúin til að leggja okkar af mörkum í þeim efnum og ganga í það verk með skjótum og

ábyrgum hætti eins og við höfum jafnan gert. Ég vil hins vegar inna hæstv. ráðherra eftir því sem hefur ekki komið fram skýrt svar við og spyr að lokum þessarar spurningar: Verða námsmenn með í þeirri nefnd sem á að endurskoða lögin sem á að afgreiða fyrir jól? Er ekki seinna vænna að fara að skipa nefndina svo að hún geti unnið í þessu og byrja helst strax í kvöld miðað við þann verkhraða sem er á núv. ríkisstjórn yfirleitt. Munu námsmenn fá tækifæri til að tilnefna mann í þessa nefnd eða ekki?
    Ég kvaddi mér hljóðs, virðulegi forseti, vegna þess að andsvarstíminn dugði ekki, vegna þess að hér var auðvitað um þvílík svigurmæli að ræða í ræðu hæstv. menntmrh. að útilokað var annað en að svara þeim. Niðurstaða mín er sú að núv. ríkisstjórn sjái því miður enga lausn aðra en þá að skerða kjör námsmanna. Það er dapurleg niðurstaða á annars góðri og málefnalegri umræðu.