Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 22:23:00 (665)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegi forseti. Mig langar til að nefna það í tilefni orða síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Reykv. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að ég er hér með smá úrklippu úr Europe sem hann þekkir væntanlega þar sem talað er um að samningurinn að því er varðaði fiskveiðarnar verði væntanlega tilbúinn í dag, 5. nóv., og að stafirnir verði settir undir þennan EES-samning. Þar stendur að ákveðið sé að það verði gert mánudaginn 18. nóv. klukkan 17.00 í Brussel. (Gripið fram í.) Það má vel vera að þetta sé ekki rétt en ég vildi bara benda á að þarna kemur það fram frá Evrópu að svona eigi að meðhöndla samninginn

þannig að það þarf kannski að hafa hraðar hendur við að þýða og að utanrmn. fjalli um þetta mál.
    Mér finnst, virðulegi forseti, að það sé æ betur að koma í ljós að myndin sem utanrrh. hefur dregið upp varðandi þessi samningsdrög sé nú ekki eins glæst og hann vildi vera láta þegar hann taldi sig hafa fengið allt fyrir ekkert í Lúxemborg á dögunum. Ég ætla mér ekki að fara út í smáatriði hér en það hefur auðvitað komið í ljós að þessar svokölluðu gagnkvæmu veiðiheimildir eru auðvitað engar gagnkvæmar veiðiheimildir heldur veiðiheimildir gegn aðgangi að mörkuðum. Það hefur líka komið í ljós æ betur að þarna hafi verið að afsala sér verulegu valdi, bæði löggjafarvaldi, dómsvaldi og framkvæmdarvaldi. Það viðurkenna allir sem kynna þennan samning erlendis. En íslenski utanrrh. vill ekki viðurkenna þetta og þykir mér það mjög einkennilegt.
    Síðan virðist það vera skoðun utanrrh. hæstv. að Íslendingar geti sett lög hér á landi um nánast hvað eina sem þeim þóknast að gerðum EES-samningi. Þetta efast ég um að geti staðist. Það sem hefur mest verið rætt um er hvort hægt sé að setja í lög hér á landi girðingar, eins og það hefur verið kallað, að því er varðar landakaup. Það virðist svo í umræðunni, bæði hér og annars staðar að allir séu sammála því að það beri að reyna að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti eignast hér land.
    Ég hef lýst, úr þessum ræðustól sem og annars staðar, efasemdum um að það sé hægt svo viðunandi sé nema að setja ákvæði inn í sjálfan samninginn um að erlendum aðilum sé óheimilt að kaupa hér land.
    Í umræðunni bæði á Alþingi og annars staðar hefur hæstv. utanrrh. sagt að það sé ekkert vandamál að setja inn í íslensk lög ákvæði sem komi í veg fyrir kaup erlendra aðila á landi. Í umræðuþætti sem var á miðvikudaginn var á Stöð 2 var m.a. rætt um þetta atriði og ég gat ekki betur heyrt en allir sem þar töluðu væru þeirrar skoðunar að það væri ekki æskilegt að erlendir aðilar gætu keypt upp land hér. Spurningin er hins vegar hvort hægt er að koma í veg fyrir það ef Íslendingar gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þar lýsti ég því í þættinum, sem ég hef reyndar líka lýst úr þessum ræðustól, að Danir hafa inni í sínum lögum að enginn geti átt sumarbústaðaland í Danmörku nema hafa búið þar sl. fimm ár. Einmitt þetta ákvæði í dönsku löggjöfinni efast margir um að geti staðist fyrir dómi. Hef ég lýst því bæði hér og annars staðar að lögmenn, m.a. þeir sem starfa hjá Evrópubandalaginu, sem og margir aðrir, telja að ef höfðað yrði mál gegn Danmörku að því er þetta varðaði mundi það ekki standast fyrir dómi. Nú langar mig, virðulegi forseti, að fá að vitna orðrétt í það sem hæstv. ráðherrann sagði í þessum umrædda þætti á Stöð 2. Hann sagði:
    ,,Ég verð nú að fá að leiðrétta þetta örstutt vegna þess að staðreyndirnar eru þessar: Í fyrsta lagi rýfur enginn, ekki nokkur einasti maður, rétt fullvalda ríkis til að setja slíkar reglur eins og við erum að lýsa, girðingareglur sem ekki mismuna þegnum.``
    Síðan segir hann: ,,En að því er varðar dóma þó að þessu verði hnekkt, það hefur reynt á það í þremur dómsniðurstöðum að því er þetta mál varðar af hálfu Evrópudómstólsins. Dæmin eru þrjú. Þau varða Grikki. Grikkir settu almenn lög þar sem þeir raunverulega útilokuðu kaup á grísku eyjunum með því að gera kröfur, girðingakröfur, um búsetu og nýtingu. Það stóðst. Grikkir voru kærðir fyrir dómstólnum og það stóðst. Þetta eru 55% af grísku landi.``
    Ég útvegaði mér þennan dóm til að sjá hvað þarna væri á ferðinni vegna þess að mér höfðu borist fregnir af því að Grikkir hefðu reynt að setja inn í sína löggjöf að Grikkir einir gætu átt land að landamærahéruðunum, sem er alveg rétt, en þau eru yfir 50% af grísku landi. Dómurinn, sem ég fékk frá utanrrn., lýsir því að framkvæmdastjórnin höfðar mál gegn Grikkjum og Grikkir tapa. Þeim er ekki heimilt að setja inn í sína löggjöf að

Grikkir einir megi eiga land að landamærahéruðunum. Það stendur ekkert í þessum dómi hvað þeim er heimilt að gera. Þeim er bara bannað þetta. Dómurinn fjallar ekkert um það að Grikkjum sé heimilt að hafa inni í sinni löggjöf eitt eða annað um girðingareglur, eins og hæstv. ráðherra segir þó mjög skýrt. Það stóðst, segir hann hér. Dæmin eru þrjú. Ég veit ekki hvernig hægt er að túlka þetta. Það getur vel verið að það sé mat einhverra manna að með því að banna þeim að setja þetta inn í sína löggjöf sé þeim heimilt eitthvað annað. Dómstóllinn hefur hins vegar ekki dæmt um það en segir eingöngu: Þið megið ekki mismuna þegnum eftir þjóðerni, og ekkert annað. Þess vegna er það ekki rétt sem ráðherrann segir, að Grikkir hafi verið kærðir og það hafi staðist. Þeir voru dæmdir og þurftu að greiða málskostnað að því er mér skilst á þessum dómi.
    Í þessum þætti talar hæstv. ráðherra líka um dóm frá Írlandi og í umræðum þann 16. október segir ráðherrann orðrétt að því er varðar Írland, með leyfi forseta: ,,Að því er varðar Írland hafa aðildarríki EB þann hátt á að þau hafa sérstaka ,,land-commission`` sem verður að samþykkja öll fasteignakaup utan þéttbýlis. Þeir hafa síðan undantekningarreglur sem kveða á um skilyrði um sjö ára búsetuskilyrði í Írlandi. EB-dómstóllinn taldi í dómi sínum, nr. 182 frá 1983, að slíkar takmarkanir væru heimilar svo framarlega sem ákvæði Rómarsamningsins um aðildarríkin væru að öðru leyti virt.`` Ef maður les síðan þennan dóm, nr. 182 frá 1983, er ekki orð um það í þessum samningi að Írum sé heimilt að hafa sjö ára búsetuskilyrði inni í sínum lögum. Það er ekki orð um það. Það sem þessi dómur fjallar um er það að Írum er heimilt að hafa það inni að fólk búi á landinu eða í hæsta lagi þremur mílum frá því landi sem um er að ræða, þ.e. Írum og öðrum. Það er engum heimilt að kaupa land nema að uppfylltum þessum skilyrðum. Það fjallar þessi dómur um. Hann fjallar ekkert um það að hægt sé að setja inn í landslög sjö ára búsetuskilyrði. Það getur vel verið að það sé mat hæstv. utanrrh. eða einhverra annarra að hugsanlegt sé að það megi gera, en þessi dómur fjallar ekki um það. Dómurinn er því ekki um það sem ráðherrann var að tala um.
    Um þriðja dæmið segir hæstv. ráðherrann í þessum sama þætti á Stöð 2, með leyfi forseta: ,,Þriðja dæmið er um Danmörku, þetta sumarbústaðaland``, og það er þá væntanlega að gefnu tilefni vegna þess að það var ég sérstaklega að ræða um. ,,Það stóðst``, segir ráðherrann einnig. Ég leyfði mér í þessum þætti að mótmæla því, það stóðst ekki, vegna þess að ég taldi mig vita betur. Síðan segir ráðherrann: ,,Ég er með útskrift af þessum dómi. Ég skal sýna þér þetta.`` Ég var kannski ekki nógu fljót á mér í þessum þætti að segja já. Ég vildi gjarnan fá að sjá þennan dóm því að mér þótti þetta mjög merkilegt. Daginn eftir var það mitt fyrsta verk að hringja í utanrrh. og biðja um þennan dóm. Þá var mér tjáð að það væri víst enginn dómur, ráðherrann hlyti að hafa meint eitthvað annað, og ég endurtók auðvitað það sem allir sáu sem horfðu á þennan þátt: Ráðherrann sagði beint að þetta væri dómur og hann væri með hann.
    Það hefur enginn dómur fallið í þessu máli. Hins vegar hef ég fengið sent frá utanrrn. svar framkvæmdastjórnarinnar frá febrúar 1988 við fyrirspurn þingmanns þar sem hann spyr um þetta atriði, hvert sé mat framkvæmdastjórnarinnar. Og mat framkvæmdastjórnarinnar er að þetta sé í lagi og þeir muni ekki höfða mál gegn Danmörku. Svar framkvæmdastjórnarinnar árið 1988 við fyrirspurn þingmanns getur ekki talist dómsniðurstaða.
    Mér finnst það vera með miklum ólíkindum, að bera þetta á borð fyrir alþjóð og halda því fram að þar með sé hægt að setja inn í löggjöf svokallaðar girðingar. Það er kannski hægt að setja einhverjar girðingar, en mér finnst ekki hægt að bera það á borð fyrir alþingismenn og alþjóð að til séu dómar, sem á að byggja okkar girðingar á, sem alls ekki eru fyrir hendi.
    Ég vil einnig benda hæstv. ráðherra á það að í Danmörku eru mjög miklar umræður einmitt um þetta atriði varðandi sumarbústaðamálið vegna þess að það er mat svo margra að þetta muni ekki geta staðist og þess vegna hafa Danir mjög miklar áhyggjur af þessu. Mér finnst alveg með ólíkindum að ráðherrann skuli leyfa sér að bera þetta á borð fyrir okkur, og væri ekki einkennilegt þó að einhverjir færu þá að efast um þá upplýsingagjöf sem borin er á borð af ráðherranum og velti því fyrir sér hvort hún sé öll með þeim sama hætti og þarna kom fram. Til þess að skýra hvers vegna ég segi þetta langar mig til að vitna orðrétt í það sem ráðherrann sagði í þessum sama þætti í tilefni af þessari umræðu sem á milli okkar varð. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Svona er upplýsingagjöfin hjá þeim sem eru að kvarta um að málið sé ekki nægilega vel upplýst``, og benti á mig um leið. Svona er upplýsingagjöfin. Þarna var ég, eins og kemur í ljós af þessu og ég reikna með að ráðherrann geti staðfest hér á eftir, að segja frá máli sem ég hafði þekkingu á og vissi hvernig var og hann bar það á mig að ég væri að fara með ósannindi og ásakaði mig um að fara með rangar upplýsingar. Ég bið menn um að reyna að vega það og meta hver það er sem fer með rangar upplýsingar í þessu máli. Mér finnst það vera algjört lágmark að ráðherrann upplýsi þjóðina um hvað í þessum samningi felst. Ég trúi því ekki að hann hafi ekki meiri trú á þessum samningi en svo að hann þurfi að vera að hylma yfir og breiða yfir staðreyndir málsins. Ég held að það sé kominn tími til að reyna að segja sannleikann í þessu máli.