Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 23:14:00 (668)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ráðherrann hlustar greinilega ekki á það sem hér er sagt eða skilur það ekki, ég veit ekki hvort heldur er. Ég var áðan að tala um, og hann hefur ekkert mótmælt því, að sá dómur, sem hann hefur verið að tala um varðandi Grikkland, fjallar ekki um rétt Grikkja til að setja nein ákvæði í sín lög. Það var dómur sem Grikkir töpuðu fyrir framkvæmdastjórninni og þá er ef til vill hægt að meta það þannig að það sé hugsanlegt að þeir geti sett upp einhverjar girðingar í sín lög. En dómurinn fjallaði ekkert um það. Síðan fullyrðir hann að hann hafi verið að tala um tvo dóma, sem sagt þennan dóm varðandi Grikkina og Íra. Og nú allt í einu er svar framkvæmdastjórnarinnar til þingmanns orðið jafngilt dómi. Það kemur ekki fram hjá honum að hann geti hugsað sér að leiðrétta það sem hann hefur hingað til sagt ranglega heldur reynir hann að snúa út úr. Þetta þykir mér ekki stórmannlegt.
    Hann vænir mig opinberlega um að vera með ranga upplýsingagjöf og snýr svo bara út úr og segir: Ég meinti bara eitthvað allt annað. Þetta get ég ómögulega talið að sé sannfærandi af hálfu ráðherrans. Þegar hann segir síðan að það séu einhver dagblöð í Danmörku sem ræði um þetta vil ég taka fram að það er verið er að ræða það á danska þinginu að það þurfi að setja það skýrt inn í samning, sem verður væntanlega gerður innan Evrópubandalagsins varðandi nánara samstarf milli landanna, að það sé ótvírætt að þeim sé heimilt að setja sín lög vegna þess að það er mat Dana að það sem þeir eru með núna muni ekki standast. Það er hreinn og klár útúrsnúningur af hálfu ráðherrans þegar hann vill ekki skilja það sem ég er að reyna að segja hér úr þessum ræðustól.