Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 23:20:00 (671)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. áðan að hann teldi að Ísland mundi útilokast frá Evrópu að því er varðaði samstarf á sviði menntunar, rannsókna og þróunar, ef ég man rétt, ef samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði yrði ekki að veruleika. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að flest EFTA-löndin eru á leið inn í EB. Er hann þar með að segja að Íslendingar muni útilokast frá Evrópu ef þeir fylgi ekki á eftir öðrum EFTA-ríkjum inn í EB? Ef þeir ætla að útiloka okkur frá öllu samstarfi ef við verðum ekki með núna ætla þeir þá ekki að útiloka okkur frá samstarfinu ef við göngum ekki alla leið með hinum inn í Evrópubandalagið? Mér finnst röksemdafærslan leiða til þess að við munum þurfa að elta alla hina inn í EB ef þeir taka skrefið þangað.