Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 23:23:00 (673)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég hef skilið þetta mál svo gagnvart þinginu burt séð frá efnisatriðum þess að það sé ætlun hæstv. utanrrh. að leggja fyrir Alþingi till. til þál. um staðfestingu á þessum tætlum þegar þær eru orðnar að samningi. Og það sé mappa allþykk upp á um það bil 1100 vélritaðar síður eða svo, þ.e. samningurinn með viðaukum. Og í öðru lagi sé það ætlun ráðherrans að áður en frá málinu er gengið í lok ársins 1992, þá hafi meginhluti laganna verið afgreiddur. Mér fannst það ekki nægilega skýrt hjá hæstv. ráðherra áðan hvernig hann og ríkisstjórnin hugsar sér að setja þetta mál upp gagnvart Alþingi. Hér er margt að starfa eins og hæstv. ráðherra veit. Ríkisstjórnin ætlar að leggja fyrir ein 170 frv. að auki í vetur þannig að það er fróðlegt að vita hvort ríkisstjórnin hefur myndað sér skoðun á því hvernig hún burt séð frá efni málsins hugsar sér að koma með þetta mál fyrir þingið til afgreiðslu ef það verður einhvern tíma endanlegt mál sem mér heyrist á utanrrh. þó að hv. formaður utanrmn. sé annarrar skoðunar.