Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 13:41:00 (682)

     Margrét Frímannsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að taka undir þau orð sem hv. þingflokksformaður Framsfl., Páll Pétursson, hefur látið falla varðandi þá grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
    Við störfum hér samkvæmt nýjum þingsköpum og auðvitað höfum við vissar væntingar varðandi störf þingsins í einni málstofu. Hins vegar var rennt blint í sjóinn og reynslan í vetur mun auðvitað gera okkur hæfari til að móta þingstörfin samkvæmt þessum nýju þingsköpum. Að ráðast á hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna með þeim hætti sem gert er í þessari blaðagrein er hv. þm. Birni Bjarnasyni ekki sæmandi og ber vott um reynsluleysi hans sem þingmanns og kunnáttuleysi varðandi þau vinnubrögð sem hér hafa tíðkast og þær væntingar sem við gerðum okkur til þeirra þingskapa sem samþykkt voru.
    Ég kannast ekki við það af þeim fundum sem ég hef setið hjá hæstv. forseta þingsins að samningar hafi ekki haldið, enda hefur ekkert undan samstarfi við forseta þingsins verið að kvarta. Forseti þingsins hefur komið til móts við óskir stjórnarandstöðunnar, enda reyndur þingmaður og veit um hvað er verið að fjalla. Ég vil því fara fram á það við hv.

þm. að hann upplýsi okkur hér og nú hvaða samningar það eru sem hafa verið brotnir svo gróflega eða hvort þetta er einungis í þeim anda sem fram kemur í greininni að hér eigi stjórnarandstaðan helst ekki að opna munninn. Það stendur í greininni, með leyfi hæstv. forseta: ,,Minni hlutinn getur ekki gert sér neinar rökstuddar vonir um að ráða gangi þingmála. Hann getur hins vegar drepið umræðu á dreif og valdið töfum.`` Þetta er sú virðing sem hv. þm. Björn Bjarnason sýnir þeim rökum sem stjórnarandstaðan hefur komið með í þeim málum sem hér hafa verið til umræðu.