Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 13:46:00 (684)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að mikilvægt er að hér ríki bæði traust og trúnaður milli þeirra sem eiga að hafa samráð um störf þingsins og mér þykir vænt um að heyra að hann kaus ekki að vera með nein illindi. Þess

þá heldur finnst mér sú grein sem hér hefur verið vitnað til undarleg þar sem hún vekur bæði illindi og hlýtur að gera það, þar sem hér er um að ræða orð manns sem er í þeirri stöðu að gegna starfi eins forseta þingsins. Ég sé ekki að þau ummæli, sem hér hefur verið vitnað til og ég mun ekki endurtaka, muni vekja það traust og þann trúnað sem ég vissulega vildi sjá ríkjandi í þingstörfum.
    Varðandi það atvik sem nú hefur fengist upplýst að er ástæða ummæla hv. þm., þá vil ég bara segja þetta: Ég held að við getum öll lesið það í þingtíðindunum að það er ærin ástæða til þess að virða óskir stjórnarandstöðu jafnt sem stjórnar þegar beðið er t.d. um nærveru ráðherra og talið að mál sem þarf að afgreiða sé honum skylt, hvort sem um kosningu í nefndir og ráð er að ræða eða eitthvað annað. Sem betur fer hefur á mínum stutta þingferli í tvö ár verið farið að slíkum óskum og slíkar óskir virtar. Þær hafa ekki mætt tregðu heldur hefur verið samstarfsvilji. Ég vil því spyrja hv. þm. Björn Bjarnason hvort hann telji það eðlilegt að breyta hér um samstarfsaðferðir þótt eitthvað sé af nýjum þingmönnum. Ég mun vera í hópi þeirra. Mér þótti, þegar ég kom á þing fyrir tveimur árum, að hér væri góður siður við lýði, að hér væri samstarf, að hér væri traust og hér væri trúnaður, frekar en illindi. Vera má að það sé einlæg skoðun hv. þm. að nú eigi að breyta til en það væri þá gott að vita það.