Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 13:59:00 (688)

     Björn Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Aðeins til að leiðrétta þann misskilning ef menn hafa túlkað orð mín svo, eins og mér þótti koma fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar, að ég teldi að sá samráðsvettvangur sem mælt er fyrir um í 72. gr. þingskapalaganna sé úr sögunni. Þvert á móti tel ég að hann sé ákaflega mikilvægur. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að það takist gott samstarf milli forseta þingsins og þingflokksformanna með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 72. gr. þingskapalaganna.
    Eins og ég sagði, við höfum verið sammála um það, að ég taldi, ég og hv. formaður þingflokks Framsfl., að þetta samráð milli þingflokksformannanna væri ákaflega mikilvægt og að það sé sá vettvangur sem eigi að nota til þess að halda hér góðu samstarfi í þinginu. Ég vildi aðeins, ef menn hafa misskilið orð mín með þessum hætti eins og mér þótti gæta í máli hv. þm. Svavars Gestssonar, standa hér upp til að leiðrétta þann misskilning.