Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:00:00 (689)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég held að hér sé mjög alvarlegur atburður á ferðinni og það dugi ekki svona einföld leið út úr vandanum eins og hv. þm. Björn Bjarnason er að reyna að fara. Þessi skrif í Morgunblaðinu í morgun eru í raun og veru algjörlega dæmalaus. Dæmalaust tiltæki hjá einum af forsetum þingsins. Ég vil minna á það að hér er einn af forsetum Alþingis að skrifa. Í þessari grein felast í fyrsta lagi, eins og þegar hefur verið vitnað til, svikabrigsl. Í fyrsta lagi svikabrigsl. Í öðru lagi ásökun um málþóf, samanber setningu, með leyfi forseta: ,,Stjórnarandstæðingar andmæla fullyrðingu um að þeir séu að tefja störf Alþingis með málþófi.`` --- Með öðrum orðum, hv. greinarhöfundur og 3. þm. Reykv. telur sig vera að afsanna þetta í greininni. Og í þriðja lagi ber hv. þm. Alþingi, og þá væntanlega stjórnarandstöðunni samanber andann í greininni, það á brýn að störf séu ómálefnaleg, samanber setninguna, með leyfi forseta: ,,Er fráleitt að afsaka ómálefnaleg vinnubrögð á Alþingi með því að benda á forsætisnefndina og störf hennar.``
    Það eru sem sagt ásakanir um svik eða svikabrigsl, eins og það heitir á íslensku, það eru ásakanir um málþóf og það eru ásakanir um ómálefnaleg vinnubrögð.
    Í þessu dæmalausa tilskrifi hrærir þessi hæstv. forseti þingsins saman flokkspólitísku skítkasti og níði um andstæðinga sína í stjórnmálum, þar sem eru árásir á bæði Alþb. og Framsfl. í greininni, og umfjöllun um störf þingsins, sem hann sem forseti leyfir sér að

bera út í fjölmiðlana með þessum hætti.
    Ég hefði talið illskárra ef hv. þm. og forseti hefði komið þessum sjónarmiðum sínum á framfæri hér í umræðum í þinginu á þeim vettvangi sem eðlilegt er að takast á um svona hluti. En að fara í fjölmiðlana með þessum hætti og hefja umræður um málefni Alþingis er alveg dæmalaust að gera og batnar það ekki þegar einn af forsetunum á í hlut.
    Síðan er óhjákvæmilegt að fá umræður um það hvernig störf Alþingis hafa gengið hingað til, forseti, vegna þeirra orða sem hér hafa fallið í tilefni þessarar greinar og af fleiri ástæðum. Því er bersýnilega verið að halda fram að stjórnarandstaðan hafi nú þegar, eftir nokkrar vikur á þingi, stórspillt hér störfum með málþófi og ómálefnalegum málflutningi. (Gripið fram í.) Já, og hæstv. fjmrh. kallar fram í og tekur undir þetta.
    En ég vil þá spyrja: Hvar voru þeir ræðumennirnir sem lengstan tímann tóku hér í umræðum t.d. um byggðamál í fyrradag? Voru það stjórnarandstæðingar? Já, reyndar. Það voru stjórnarandstæðingarnir hv. þm. Matthías Bjarnason, hv. þm. Egill Jónsson, hv. þm. Sturla Böðvarsson, hv. þm. Einar Guðfinnsson og svo mætti áfram telja. ( Gripið fram í: Allir í stjórnarandstöðunni?) Já, væntanlega, því það voru þeir sem töluðu aðallega í þessari umræðu. Þetta var nú reyndar dagskrármál.
    Nei, virðulegur forseti, það þarf auðvitað að taka um þetta mál sérstaka umræðu, ég geri mér grein fyrir því að það er ekki heppilegt að ræða það undir liðnum þingsköp og ætla ekki að gera það. En mér sýnist því miður það alvörumál blasa við að ekki sé einasta búið að eyðileggja forsætisnefndina sem samráðsvettvang um störf þingsins, heldur sé hv. þm. Björn Bjarnason á góðri leið með að eyðileggja líka þann vettvang sem eru fundir formanna þingflokka og forseta þingsins.