Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:11:00 (692)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég get tekið undir öll þau orð sem hæstv. ráðherra Þorsteinn Pálsson flutti hér í ræðustólnum. Ég er sammála hverju einasta orði sem hann sagði hér. Það er aðeins eitt sem þarf að gerast til viðbótar til þess að við getum haldið áfram að starfa hér í góðum anda og að löggjafarstörfum, það er það að annaðhvort biðjist hv. þm. Björn Bjarnason afsökunar á ásökun sinni í garð formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar, að orðum þeirra sé ekki treystandi, eða að forseti Alþingis lýsi því yfir úr forsetastóli að hún sé ósammála þessum orðum.
    Við getum ekki setið undir því að vera bornir sökum af einum varaforseta þingsins, af varformanni þingflokks Sjálfstfl., að orð okkar standi ekki. Ég veit að jafnreyndur maður og hæstv. dómsmrh. skilur án útskýringa hvers vegna það er.
    Í þessari grein segir, með leyfi forseta: ,,Hins vegar hefur verið upplýst í umræðum í þingsalnum, að ekki hefur reynst unnt að treysta því sem menn töldu niðurstöðu á slíkum samráðsfundi forseta með þingflokksformönnum. Þá alvarlegu brotalöm má rekja til stjórnarandstöðunnar.``
    Þetta er að mínum dómi svo þung ásökun að það er ekki hægt að halda áfram á þeim grundvelli sem hæstv. dómsmrh. mæltist hér til, og ég tek innilega undir, án þess að annaðhvort gerist að hv. þm. dragi þessi orð til baka og biðjist afsökunar á þeim, og ég vona að hann geri það og ég held að þingið muni virða hann fyrir og telja hann mann að meiri, eða þá að virðulegur forseti lýsi því yfir að hún sé ósammála þessari lýsingu, hún hafi ekki þessa reynslu.