Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:34:00 (701)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég gegndi formennsku í þingflokki Alþb. á árunum 1980--1983. Það vita margir í þingsalnum að það var mjög erfiður tími á Alþingi vegna þess að Sjálfstfl. var klofinn. Hluti Sjálfstfl. var í ríkisstjórn og studdi hana. Hinn hluti Sjálfstfl. var í harðri stjórnarandstöðu. Við gegndum þá formennsku í þingflokkunum fjórum, núv. hæstv. menntmrh., núv. hæstv. heilbrrh., hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson og ég. Það var mjög gott samstarf. Grundvöllur þess samstarfs var sá gamli og góði sannleikur að orð skulu standa. Við þurftum aldrei að bóka á okkar fundum. Við þurftum aldrei að skrifa undir hver hefði verið niðurstaðan. Við treystum hver öðrum og orð stóðu. Og ef menn gátu ekki framkvæmt þá niðurstöðu sem varð, sem oft gerðist, þá höfðu menn ríkan skilning á hvers vegna það var.
    Ég er þess vegna algerlega á móti því sem hv. þm. Geir Haarde sagði. Nei, það er rangt, hv. þm., að benda á hv. 1. þm. Norðurl. v. Vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði að þar sem orð hefðu fallið frá varaformanni þingflokks Sjálfstfl. í blaðagrein og varaforseta þingsins gæti þetta traust ekki lengur verið fyrir hendi og þess vegna þyrfti að bóka, vegna þess að traustið væri ekki lengur fyrir hendi. En ef traustið er fyrir hendi og við störfum áfram í anda þeirrar gömlu reglu sem hefur gilt um áratugi að orð skulu standa, þá þarf ekki neitt að bóka. En að taka það upp sem kerfi í samskiptum þingflokka og þingmanna að það þurfi að bóka niðurstöður eru yfirlýsingar um að sú gamla siðaregla að orð skulu standa skuli aflögð.
    Ég vil þess vegna mótmæla því sem niðurstöðu þessara umræðna sem fram kom hjá

hv. þm. Geir Haarde að nú skuli upp tekinn sá siður framvegis að bóka niðurstöður milli samráðs formanna þingflokka og forseta. Það væri illt skref. Það kann að vera nauðsynlegt ef traustið er ekki fyrir hendi, en að innsigla það að traustið sé ekki fyrir hendi með því að taka upp þann sið, því mótmæli ég algerlega hér.