Lánsfjárlög 1992

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 15:43:00 (705)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Það er enginn á mælendaskrá og mér þykir rétt að byrja á því að þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir málefnalegar ræður. Jafnframt vil ég gera tilraun til þess að svara þeim fyrirspurnum og ábendingum sem til mín og ríkisstjórnarinnar var beint. Sumu af því sem fjallað var um í ræðum hv. stjórnarandstæðinga sem hér tóku til máls hefur verið svarað af hæstv. viðskrh. Þar á meðal hefur verið gefin skýring á þeim vöxtum sem nú gilda í bankakerfinu, en það er rétt sem reyndar hefur komið fram í þessari umræðu og fyrr í öðrum umræðum á Alþingi að vextir af óverðtryggðum skuldbindingum í bankakerfinu gætu reynst mjög háir á síðasta ársfjórðungi þessa árs ef bankaráð bankanna og sparisjóðanna taka ekki ákvörðun um að lækka nafnvextina.

Smáskref var stigið í þeim efnum um síðustu mánaðamót og ég á von á því að bankaráðin taki áframhaldandi skref í þá átt á næstu ákvörðunardögum um vaxtabreytingar.
    Það sem er hins vegar mjög merkilegt við þessi tíðindi er að ástæðan fyrir þessum háu raunvöxtum af óverðtryggðum skuldbindingum er auðvitað sú að verðbólgan hefur verið á hraðri niðurleið og í þessari spá sem vitnað hefur verið til og hv. 1. þm. Austurl. gerði að umtalsefni er sagt að gera megi ráð fyrir að verðbólga mæld á framfærsluvísitölu verði 3,8% á síðasta ársfjórðungi. Það er auðvitað það sem málið snýst um og ber að fagna því sérstaklega að slíkur árangur muni nú nást.
    Ég ætla ekki að víkja sérstaklega að vaxtamálum. Það hefur verið gert áður, var gert í umræðum sem hér fóru fram um fjárlagafrv. en það liggur þó í augum uppi að viðskiptabankarnir hafa á síðari hluta ársins verið að reyna að vinna upp það tap sem þeir urðu fyrir frá því á síðasta ári og á fyrstu mánuðum þessa árs með því að hafa vaxtamuninn heldur meiri en þá var. Þetta er mál sem rætt var fyrir tæpu ári síðan. Þá urðu hér harðar umræður í þingsölum um stefnu þáv. ríkisstjórnar og þá hættu sem af þeirri stefnu gæti hlotist en því miður virtist þáv. ríkisstjórn ekki hafa mikinn skilning á sambandi vaxta og sparnaðar og gerði sér ekki grein fyrir áhrifum vaxtstigsins á efnahagslífið í landinu. Þetta birtist m.a. í því sem fram hefur komið að úr ríkissjóði streymdu verulegar upphæðir á fyrstu fjórum mánuðum ársins og ríkissjóður varð fyrir því að þurfa að greiða út verulegar upphæðir þvert á það sem gerst hafði á árinu á undan á sömu mánuðum. Um þetta höfum við rætt og skýrslu hefur verið dreift, sem um þetta var gerð, þegar ný ríkisstjórn tók við völdum sl. vor. Ég þarf heldur ekki að rekja söguna frá þeim tíma. Vextir hækkuðu og vaxtahækkunin er nú að skila því að dregið hefur úr þeim mun á síðustu mánuðum og sá munur hefur minnkað á milli innflutnings og útflutnings en það er einmitt aðalmarkmiðið með vaxtahækkuninni að ná því fram. Auðvitað gilda sömu lögmál hér á landi og alls staðar annars staðar þar sem tiltölulega mikið frelsi ríkir á fjármagnsmarkaði. Vandamálin sem við stóðum frammi fyrir voru þau að í áætlunum fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir að heildarsparnaður landsmanna yrði 36 milljarðar kr. en í byrjun maí í vor bentu nýjar spár til þess að heildarsparnaðurinn yrði ekki nema 24 milljarðar. Frá þeim tíma hafa spár breyst, aðstæður hafa breyst, vextir hafa breyst og síðustu spár sem liggja fyrir benda til að heildarsparnaður innan lands verði 29 milljarðar kr. á yfirstandandi ári.
    Ríkisstjórnin hefur, eins og fram hefur komið í þessari umræðu og reyndar oft áður, sett fram þá stefnu að draga úr lántökuþörf opinberra aðila. Miðað við það sem er að gerast á yfirstandandi ári má gera ráð fyrir að á næsta ári verði lántökuþörfin þriðjungi minni. Ég skal viðurkenna að þótt þessi árangur sé mikilvægur, þá er mér ljóst að æskilegast væri að ná meiri árangri. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún sé tilbúin til þess í samráði við aðra aðila hér á landi, t.d. aðila vinnumarkaðarins, að vinna að því að draga enn frekar en gert hefur verið úr lántökuþörf opinberra aðila. Þetta kom mjög skýrt fram í umræðum sem hér áttu sér stað við 1. umr. um fjárlagafrv.
    Nokkuð hefur verið rætt um húsbréfakerfið. Hæstv. viðskrh. rifjaði upp nokkrar staðreyndir um húsbréfakerfið. Vegna fyrirspurnar um það mál þykir mér rétt að benda á að sú ákvörðun Seðlabankans að láta húsbréf jafngilda peningum eða spariskírteinum og mynda þannig lausafé og lausafjárhlutfall bankanna gildir til næstu áramóta. Það er rétt sem fram hefur komið að þessi ákvörðun hefur haft það í för með sér að augljóslega hefur verið nokkuð erfiðara um vik á markaðnum fyrir spariskírteini ríkissjóðs því að húsbréf eru með ríkisábyrgð og hafa samkvæmt gengi á fjármagnsmarkaði sýnt að þau bera verulega góða ávöxtun fyrir þá fjárfesta, t.d. lífeyrissjóði, sem vilja binda fé til langs tíma á mjög góðum kjörum.

    Ég bendi á að í því frv. sem hér er til umræðu er um nýbreytni að ræða hvað varðar húsnæðissjóðina og reyndar húsbréfin því að í fyrsta skipti er tekið fram hve mikið megi taka að láni af hálfu Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna og húsbréfadeildar Byggingarsjóðs ríkisins. Með þeim hætti viljum við tryggja frekar en gert hefur verið undanförnu að þær áætlanir sem gerðar hafa verið um lántöku þessara aðila standist. Ég bendi á að í stað 15 milljarða kr. útgáfu húsbréfa á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að afgreiðsla á næsta ári verði 12 milljarðar.
    Hv. 1. þm. Austurl., sem flutti málefnalega ræðu að vanda, minntist á Atvinnutryggingarsjóð, sem nú er atvinnutryggingardeild Byggðasjóðs, og tók upp hanskann fyrir þann sjóð sem eðlilegt er. Hann spurðist fyrir um það hvort ríkisstjórnin hygðist gera úttekt á fjárfestingarlánasjóðum með sama hætti og gert hefði verið um Atvinnutryggingarsjóð. Það stendur ekki til svo að ég viti. Hins vegar ákvað ég í september að biðja Ríkisendurskoðun að fara í gegnum Ríkisábyrgðasjóð og kanna mjög ítarlega hver staða hans er og hvernig á málefnum þess sjóðs hefur verið haldið að undanförnu. Ég geri mér vonir um að niðurstaða Ríkisendurskoðunar verði birt þegar hún hefur verið send fjmrh. síðar í þessum mánuði.
    Ég vil enn fremur benda á, hafi það farið fram hjá hv. þm., að í fjáraukalagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir 350 millj. kr. framlagi ríkissjóðs til atvinnutryggingardeildar Byggðasjóðs þar sem nú er vitað að um verulegt tap er að ræða hjá sjóðnum og þess vegna hægt að afskrifa útlánin. Þetta er gert til þess að létta á atvinnutryggingardeild Byggðasjóðs, en ljóst er eins og fram kemur í frv. að erfiðleikarnir verða miklir á næstu árum og sést það einna best á 3. tölul. 3. gr. frv.
    Hv. þm. ræddi nokkuð um tekjuhlið fjárlagafrv. Það er rétt að lánsfjárlagafrv. fylgir eðli máls samkvæmt fjárlagafrv. Hann minntist á tekjuhlið fjárlagafrv. og spurðist fyrir um nokkur atriði. Fyrst sagði hann að núv. ríkisstjórn væri að reyna að fela það að ekki væri um að ræða hækkun á tekjuskatti í fjárlagafrv. Af þessu tilefni vil ég taka það fram að samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að jöfnunargjald sem gefur á þessu ári um það bil einn milljarð falli brott. Í staðinn er gert ráð fyrir að meiri tekjur innheimtist af tekjuskattinum vegna þess að fallið verði frá ýmsum frádrætti og afslætti í tekjuskattskerfinu. Hv. þm. benti réttilega á að þarna væri væntanlega um að ræða barnabætur, vaxtaafslátt og fleiri slíka liði. Það er rétt til getið. Þessi mál eru nú til skoðunar af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.
    Það hefur enginn reynt að draga dul á að ríkissjóður ætlar sér að innheimta meiri tekjur af tekjuskattinum með þessum hætti eða jafna þann mun sem verður vegna þess að minni tekjur koma af öðrum sköttum. Ég get ekki á þessari stundu sagt nákvæmlega í hverju breytingarnar verða fólgnar en ég geri fastlega ráð fyrir því að um frekari tekjutengingar verði að ræða. Ég vil taka það fram af því að mér heyrðist hv. þm. vera að gera því skóna að slíkar tekjutengingar væru af hinu vonda að þær eru í núgildandi lögum. Og ég rifja það upp að hv. þm. sem var í síðustu ríkisstjórn stóð að því eins og aðrir hv. þm. sem sátu í þeirri ríkisstjórn að breyta lögum, þar á meðal lögum um vaxtaafslátt, einmitt með því að auka tekjutengingar.
    Ég vil enn fremur geta þess af því að hv. þm. ræddi þetta efnislega og málefnalega að það er ekki nauðsynlegt að skattbyrðin aukist hjá þeim sem flest eiga börnin því það er hægt auðvitað að taka tillit til barnafjölda ef menn vilja gera breytingar. Þessi mál eru öll til skoðunar en það er rétt að ríkisstjórnin ætlar sér að ná meiri tekjum með þessum hætti. Ég minni á að frádráttar- og afsláttarliðir eru meira en 10 milljarðar í núverandi kerfi. Það er gert ráð fyrir því, ef ég man rétt, að tekjuskattur á næsta ári verði 13--14 milljarðar nettó.

    Í þessu sambandi er kannski fróðlegt að nefna að ef staðgreiðsluskil væru þau sömu af öllum tekjum og um enga frádráttarliði væri að ræða mundi staðgreiðslan skila yfir 80 milljörðum kr. en um það bil helmingurinn fellur þegar brott vegna persónuafsláttarins.
    Hv. 1. þm. Austurl. ræddi síðan um samræmingu tekjuskatta og eignarskatta. Af því tilefni vil ég einungis segja að það er ekki ætlunin, eins og hann gat réttilega um, að auka tekjur ríkissjóðs með þeirri skattkerfisbreytingu sem um er rætt á milli stjórnarflokkanna. Það er hins vegar ljóst að nokkrir skattar falla niður og breytast. Þar á meðal á ég von á því að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eins og reyndar kemur fram í grg. með því frv., falli brott. Ég á von á því að eignarskattar lækki verulega og svo kann að fara að einhverjar aðrar breytingar verði gerðar á skattkerfinu. Ljóst er að hér er fyrst og fremst verið að tala um einstaklingsskatta en mér þykir rétt að láta eignarskatt á atvinnuhúsnæði vera með í þessari umræðu því að þar er auðvitað um eignarskatt að ræða þótt fyrirtækið beri eignatekjuskatta í dag.
    Varðandi aðstöðugjaldið sem hv. 1. þm. Austurl. minntist á og hæstv. viðskrh. ræddi einnig vil ég geta þess að það mál fjallar um tekjur sveitarfélaga. Á vegum félmrn. hefur verið starfandi nefnd sem fjmrn. hefur átt aðild að. Nefndin hefur skoðað þetta mál og ég hygg að það verði ekki langt þangað til útreikningar sjást frá nefndinni. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu um hvernig fara eigi með málið. Ég hygg nefnilega að þeir sem mest hafa barist fyrir því að fella niður aðstöðugjaldið af því að þeir telja að með því sé verið að færa til fjármuni frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina verði fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sjá útreikningana því að ég hygg að tilfærslan verði fyrst og fremst á milli Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna. Hins vegar leiðir þetta hugann að því hvort ekki sé nauðsynlegt að haga skattkerfinu hér á landi með þeim hætti að sveitarfélögin fái til sín tekjur af atvinnurekstri til þess að þau hafi þann áhuga sem þarf til þess að laða til sín atvinnufyrirtæki. Ef og þegar aðstöðugjaldinu verður breytt finnst mér nauðsynlegt að það gerist með þeim hætti að fyrirtækin verði látin bera skatta til sveitarfélaganna í staðinn. Að öðrum kosti er sú hætta fyrir hendi að fyrirtækjarekstur verði kvöð á þeim sveitarfélögum sem eru í nábýli við svokallaða svefnbæi og er ég þá ekki að tala með niðrandi hætti um slíka bæi nema síður sé.
    Þetta eru allt sjónarmið sem þarf að kanna. Þau eru til skoðunar. Engin ákvörðun liggur fyrir. Ríkisstjórninni er að sjálfsögðu kunnugt um sjónarmið atvinnulífsins. Við vitum um uppsöfnunaráhrifin sem eru í aðstöðugjaldskerfinu en málið er ekki komið á það stig að hægt sé að taka endanlega ákvörðun um það.
    Hv. 6. þm. Vestf. spurðist fyrir um 7. gr. frv. en í henni segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkisjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í II. kafla og endurlána til þeirra með þeim kjörum og skilmálum sem hann ákveður.``
    Hér er fyrst og fremst átt við 5. gr. í II. kaflanum þar sem segir að fjmrh. sé heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku til Herjólfs og Vatnsleysustrandarhrepps. Það er hugsanlegt að gera það með öðrum hætti, eins og segir í 7. gr. Ég vil taka það fram að þetta er ekki nýmæli í lánsfjárlögum. Slík ákvæði hafa verið í lánsfjárlögum áður og eru t.d. í 15. gr. lánsfjárlaga yfirstandandi árs sem fyrrv. ríkisstjórn flutti á síðasta þingi og voru samþykkt þá. Hér er því ekki um nýmæli að ræða.
    Ég held að ég hafi rætt nokkur atriði sem fram komu í máli hv. 6. þm. Vestf., einkum um vaxtamálin, og þetta hafi verið eina spurningin sem til mín var beint.
    Ég þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls í þessari umræðu fyrir málefnalegar umræður og fagna því að þetta mál komist til nefndar. Það er auðvitað mjög brýnt að það og nokkur önnur mál sem hér eru á dagskrá komist áfram til nefndar því að það

er nauðsynlegt að þau fái umfjöllun á sama tíma og fjárlagafrv. er til meðferðar í nefnd.