Iðnráðgjöf á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:41:00 (711)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjendum en vil vekja á því athygli að þess misskilnings gætir í ræðu hæstv. iðnrh. að Byggðastofnun reki útibú. Það gerir hún ekki. Hún rekur ekkert útibú. Hluti af starfsemi hennar fer fram á Akureyri og hluti af starfsemi hennar fer fram á Ísafirði. Ætlunin var að hluti af starfsemi hennar færi fram í öllum kjördæmum landsins. Á rekstri útibúa og því að reka skrifstofur með þessu móti er sá reginmunur að umsvif skrifstofunnar t.d. á Akureyri hafa alls ekki verið hugsuð endilega bundin við Norðurland, heldur á landsvísu í ýmsum málum. Sama má segja um Vestfirði þegar þar fjölgar starfsmönnum.
    Hins vegar vil ég taka undir að það er mikið áhyggjuefni þegar horft er á hve naumt fjármunum til Byggðastofnunar er skammtað og tel að sé hæstv. ráðherrum landsins alvara með því að þeir vilji efla þessa ráðgjöf, þá þurfi að taka það mál til endurskoðunar.