Iðnráðgjöf á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:42:00 (712)

     Ragnar Arnalds :
     Virðulegi forseti. Ég taldi á sínum tíma alls ekki fráleitt í sjálfu sér að færa þessa atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni frá iðnrn. og til Byggðastofnunar, því margt er skylt með þeirri starfsemi sem fer fram í Byggðastofnun og þeirri starfsemi sem atvinnuráðgjafar hafa haft með höndum. En auðvitað var það sjálfsögð forsenda fyrir þessari breytingu að fé fengist til starfseminnar og þrátt fyrir svar hæstv. iðnrh. stendur það eftir að í raun og veru er ekkert fjármagn til til að standa undir þessum kostnaði. Framlög til Byggðastofnunar hafa verið skorin niður um 50 millj. Framlag til Byggðastofnunar þarf að standa undir margvíslegum kostnaði, eins og rekstri, og þegar það er skorið niður um 50 millj. þá sér hver heilvita maður að það getur ekki verið neitt afgangs til þess að bæta við starfsemi sem hingað til hefur verið á vegum annarrar stofnunar. Þarna þarf því að verða breyting á við fjárlagagerðina.