Iðnráðgjöf á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:45:00 (714)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Þetta mál stefnir því miður í það horf sem ég óttaðist þegar lagabreytingin var gerð, þ.e. að fella úr gildi lög um iðnráðgjöf í kjördæmum landsins, því það voru öll kjördæmi sem áttu þar ákveðinn rétt, og flytja þetta verkefni til Byggðastofnunar án þess að það væri lögboðið með skýrum hætti hvaða fjárframlög ættu að lágmarki að renna til atvinnuþróunarráðgjafar á landsbyggðinni.
    Hæstv. iðnrh. er kunnugt um þetta viðhorf mitt og raunar þingflokks Alþb. sem skrifaði á sínum tíma bréf þar að lútandi til ráðherrans þegar mál þetta var í undirbúningi.
    Nú segir hæstv. ráðherra að Byggðastofnun geri ráð fyrir þessu í sínum fjárhagsáætlunum. Á sama tíma sker ríkisstjórnin fjárframlög til Byggðastofnunar niður í krónutölu um 20% og auðvitað meira að raungildi og ráðherrann segir samt að þetta eigi að vera tryggt. Þetta mál eigi að vera í höfn. Menn þurfi engar áhyggjur að hafa. Þeir sem vinna nú að iðnráðgjöf úti um landið hafa engin skýr svör fengið. Þeir hafa bara fyrir framan sig þetta bréf, sem ég vitnaði til, frá embættismanni í Byggðastofnun sem hefur í sínu erindi fulla fyrirvara með tilliti til fjárveitinga en er að biðja um upplýsingar um umfang starfseminnar og óskir.
    Þetta er ekki að tryggja mál. Það er mjög langt frá því. Ég fer fram á það að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvort hann ætlar að hlutast til um það innan ríkisstjórnar að þarna fáist leiðrétting á og með því að koma þessu máli í skilmerkilegt samhengi gagnvart þinginu og fjárln., sem auðvitað fjallar um þessi efni. Ella er hætta á því að um áramótin standi menn frammi fyrir því að ríkið hafi dregið að sér höndina, Byggðastofnun hafi ekki talið sig hafa svigrúm til þess að standa að stuðningi við þessa starfsemi sem nauðsynlegt er að auka verulega og ekki aðeins að standa við það sem verið hefur, sem hefur þó reynst býsna erfitt á undanförnum árum og alltaf kostað fyrirhöfn. En það hefur þó tekist vegna þess að ákveðin löggjöf var í gildi um þetta efni. Nú hefur orðið breyting á og þess vegna hef ég miklar áhyggjur af þessu máli og bið hæstv. ráðherra um að finna orðum sínum betri stað en gert hefur verið um að þetta mál sé í tryggri höfn.