Umferð á Reykjanesbraut

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:53:00 (717)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
     Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 49 lagt fram svofellda fsp. til hæstv. samgrh. um umferð á Reykjanesbraut:
    ,,Hvað líður undirbúningi aðgerða til að bæta öryggi vegfarenda á Reykjanesbraut og til að auka flutningsgetu brautarinnar, allt frá Hafnarfjarðarvegi í Engidal til Suðurnesja?``
    Ég geri þá grein fyrir spurningu minni að á fjórum undangengnum þingum hafi verið flutt þingmál varðandi öryggi vegfarenda á Reykjanesbraut og um flutningsgetu brautarinnar frá Hafnarfirði til Njarðvíkur. Frá Hafnarfjarðarvegi liggur Reykjanesbraut um Hafnarfjörð. Nokkrar götur bæjarins tengjast henni með einföldum gatnamótum og á sama við um mót hennar og annarra vega um Suðurnes. Eldri þjóðvegir til Garðs og Sangerðis hafa enn ekki verið tengdir Reykjanesbraut ofan Keflavíkur með bundnu slitlagi.
    Reykjanesbraut allt frá Reykjavík til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Miðnesheiði er sérstæð meðal þjóðvega landsins. Hún tengir höfuðborgina við eina alþjóðaflugvöllinn sem á er stundað alþjóðaflug, áætlunarflug milli landa. Hún liggur gegnum þrjá af fjölmennustu kaupstöðum landsins. Hún er notuð af því sem næst öllum landsmönnum ef þeir vilja

ferðast til annarra landa, af langflestum erlendum ferðamönnum sem til landsins koma og af nærfellt öllum þeim sem hingað koma í opinberum erindum.
    Reykjanesbraut er eitt þeirra mannvirkja sem gefa erlendum gestum okkar fyrstu og síðustu kynni af landinu og er þess vegna meðal sterkra áhrifavalda í ferðalagi þeirra, áhrifavalda um endurkomu hingað eða ekki.
    Umferð um Reykjanesbraut hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum. Þungi og magn vöruflutninga hefur aukist enn meir en fólksflutningar. Umferðaróhöppum og slysum hefur fjölgað að sama skapi og þarf ekki að rifja upp fregnir af slíkum. Áhyggjur af öryggi vegfarenda sem leið eiga um brautina hafa komið fram í vaxandi mæli í skrifum og lesendadálkum fjölmiðla, í ályktunum sveitarstjórna um brýna þörf til að bæta úr og í þessum þingmálum sem ég nefndi.
    Með byggingu og starfrækslu stóriðjuvers á Suðurnesjum, sem ráðgert er á Keilisnesi, með byggingu og starfsemi flugskýlis á Keflavíkurflugvelli til eftirlits og viðhalds á flugflota Flugleiða hf. og til að annast slík verkefni fyrir aðra aðila í alþjóðlegum flugrekstri, með tilkomu fríiðnaðarsvæðis við Keflavíkurflugvöll, með auknum straumi ferðamanna til og frá landinu ásamt vaxandi starfsemi landsmanna í ferðaþjónustu hvers konar og með eðlilegum vexti byggðarlaga og atvinnulífs á Suðurnesjum, þá munu umferð og flutningar um Reykjanesbraut enn stóraukast í nálægri framtíð og búast má við tilsvarandi fjölgun óhappa og slysa ef ekkert verður að gert. Því spyr ég nú ráðherrann um undirbúning aðgerða til úrbóta.