Málefni flugfélaga á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:04:00 (721)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Spurt er í fyrsta lagi: ,,Er gert ráð fyrir að sú reglugerð um flugmál, sem koma á til framkvæmda um næstu áramót og skyldar flugfélög til að hafa tvo flugmenn í öllum flugvélum, komi til framkvæmda?``
    Um þetta er það að segja að í reglugerð um flugrekstur, nr. 381/1989, segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þótt flughandbók geri einungis ráð fyrir einum flugmanni skulu samt í atvinnuflugi með farþega vera tveir flugmenn með tilskilin réttindi á hlutaðeigandi flugvélartegund. Þessi grein tekur gildi 1. jan. 1992.``
    Fram til næstu áramóta er hins vegar í gildi bráðabirgðaákvæði sem segir að tvo flugmenn þurfi í flutningaflugi með farþega í reglubundnu áætlunarflugi og leiguþjónustuflugi milli Íslands og annarra landa. Enn fremur að tvo flugmenn þurfi í reglubundnu áætlunarflugi og leigu- eða þjónustuflugi með þotum, skrúfuþotum með jafnþrýstibúnaði og í þriðja lagi í flugvélum sem gerðar eru til flutninga á fleiri en níu farþegum.
    Þetta bráðabirgðaákvæði er í höfuðatriðum í samræmi við þær reglur sem gilda í þessum efnum í nágrannalöndum okkar. Ákvæðið sem ég vitnaði til hér að framan gengur hins vegar lengra en tíðkast innan þeirra alþjóðlegu samtaka sem Ísland er aðili að á sviði flugmála. Því er ekki að leyna að það ákvæði hefur verið umdeilt, enda er það svo að nú þegar liggur fyrir tillaga frá Loftferðaeftirlitinu, dags. 30. ágúst, um að rýmka ákvæðið þannig að ekki verði afdráttarlaust krafist tveggja flugmanna í öllu flutningaflugi með farþega. Tillaga Loftferðaeftirlitsins hefur hlotið samhljóða samþykki flugráðs á fundi ráðsins 1. okt. sl. Samkvæmt tillögunni hljóðar áðurgreint reglugerðarákvæði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þótt flughandbók geri einungis ráð fyrir einum flugmanni skulu samt vera tveir flugmenn með tilskilin réttindi á viðkomandi flugvélartegund í flutningaflugi með farþega. Í þjónustuflugi með eins hreyfils flugvélum, sem flogið er að degi til við sjónflugsskilyrði, er þó heimilt að í flugáhöfn sé einn flugmaður. Þessi grein tekur gildi 1. jan. 1992.``
    Svohljóðandi er þessi grein í tillögu um nýja reglugerð um flutningaflug sem ætlað er að komi í stað reglugerðar um flugrekstur, enda að stofni til hin sama og er endurskoðunin grundvölluð á viðbæti 6, hluta I, við stofnskrá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem tók gildi 15. nóv. 1990.
    Með þessari breytingu yrðu íslenskar reglur um samsetningu flugáhafna í meira samræmi við reglur sem tíðkast m.a. í Evrópubandalaginu og í EFTA-ríkjunum. Breytingin hefði í för með sér að þjónustuflug, þ.e. óreglubundið flug til flutninga á farþegum og vörum í loftförum sem hafa hámarksmassa minna en 5.700 kg og viðurkennd eru til flutnings á allt að níu farþegum, yrði áfram unnt að stunda á eins hreyfils vélum með eins manns áhöfn við ákveðin skilyrði. Í því felst að póstflug eftir atvikum með farþega fellur innan þeirra marka, sem og útsýnisflug, svo helstu þættir þessarar starfsemi séu nefndir.
    Ljóst er að póstflug án farþega krefst ekki tveggja flugmanna. Samkvæmt hinu breytta reglugerðarákvæði nægir einnig einn flugmaður þótt farþegar séu fluttir með póstflugi sé um að ræða eins hreyfils flugvél og ef flogið er að degi til við sjónflugsskilyrði. Hið sama á að sjálfsögðu við um sjúkraflug. Sú hætta er vissulega fyrir hendi að þessi þjónusta leggist af ef afdráttarlaust verður krafist tveggja flugmanna þegar flogið er með farþega þar sem ekki yrði grundvöllur fyrir slíkum flugrekstri nema til kæmu styrkir til rekstrarins.
    Þau rök, sem færð eru fyrir kröfunni um tvo flugmenn í öllu flutningaflugi með farþega, varða öryggi farþega og áhafnir flugfarsins. Það þarf ekki mikla skarpskyggni til að sjá að þegar flogið er í viðsjárverðu veðri og við erfið skilyrði á annan hátt felst mikið öryggi í því að tveir flugmenn fljúgi flugvélinni og geti skipt með sér verkum er gætu verið einum manni ofviða að inna af hendi af því öryggi sem krefjast verður. Slíkum rökum er harla erfitt að mótmæla, enda hafa verið nefnd dæmi um flugslys sem ætla má að hefðu síður orðið ef tveir flugmenn hefðu verið við stjórn. Á hinn bóginn koma þau rök að verði krafist tveggja flugmanna sé hætta á að flugrekstur í strjálbýli leggist af og því verði fólk að treysta í ríkari mæli en ella á aðrar samgönguleiðir.
    Það þekkja allir Íslendingar að vetrarferðir um vegi, ekki síst á heiðum og fjöllum, geta verið viðsjárverðar, stundum beinlínis hættulegar og vart þarf að nefna þær hættur sem fylgja sjóferðum við strendur landsins og á hvort tveggja höfum við verið minnt óþyrmilega núna síðustu daga.
    Mér hafa borist fjölmargar umsagnir og áskoranir vegna þessa máls. Sveitarstjórnir hafa lýst áhyggjum sínum af því að flugsamgöngur til byggðarlaga þeirra séu í hættu verði krafist tveggja flugmanna. Flugrekendur sem byggja afkomu sína á rekstri lítilla flugvéla hafa lýst áhyggjum sínum af því að þeir standist ekki þann kostnaðarauka sem fylgir tvöföldun áhafnar.
    Ég næ ekki að lesa allt svarið en í stuttu máli eru lokin þessi: Á grundvelli þess sem ég hef sagt hef ég ákveðið að um fjölda flugmanna í áhöfn gildi sú regla sem Loftferðaeftirlitið hefur lagt til og flugráð samþykkt og ég las upp áður.
    Spurt er hvort póstflug og sjúkraflug í landshlutum leggist af. Svarið við því er nei og raunar ekki spurning um einn eða tvo flugmenn hvort sjúkraflugi sé haldið uppi.
    Í þriðja lagi er spurt hvernig íbúum verði tryggð sú þjónusta og það öryggi sem í því hefur verið fólgið að flugvélar hafa haft aðsetur úti á landsbyggðinni. Það stendur ekki til og engar tillögur eru um að hið opinbera styrki slíka starfsemi.