Málefni flugfélaga á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:14:00 (724)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum áðan þegar hæstv. samgrh. lýsti þeim tilslökunum sem búið væri að ákveða frá þeim reglum sem áður hefðu verið settar í reglugerð án þess að ég taki efnislega afstöðu til þess. Tilslökunin var í þá veru að leyfa flug með einum flugmanni í vöru- og farþegaflugi á eins hreyfils vélum þegar veðurskilyrði gæfu tilefni til. Það er eiginlega mjög ánægjulegt að við skulum hafa veðurfræðing hér í salnum núna því að mér finnst einhvern veginn að þeir sem þarna stóðu að máli hafi lítið tillit tekið til íslenskra aðstæðna. Að mínu mati, við fyrstu skoðun, er það vítavert að ætla að beina þessu flugi, við okkar ótryggu veðurfarsaðstæður, yfir á eins hreyfils vélar. Þetta kannski mundi duga á staðviðrissvæðum sunnar í álfunni en að mínu mati er hér verið að fara úr öskunni í eldinn.