Menntunar- og starfsréttindi lögreglumanna

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:28:00 (730)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

     Frú forseti. Í 5. gr. laga um lögreglumenn segir svo:
    ,,Engan má ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. júlí 1990 án þess að hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Heimilt er að lausráða menn til reynslu til lögreglustarfa meðan á námi þeirra stendur í Lögregluskóla ríkisins. Reynsluráðning skal aldrei standa lengur en tvö ár.``
    Með vissum hætti má segja að með þessari lagabreytingu hafi starf lögreglumanna verið lögverndað nema að því er varðar þá undanþágu sem leiðir af störfum manna á sumarorlofstíma. Ég tel að framkvæmd laganna sé nú að komast í fastar skorður en það er rétt að einkanlega í fyrrahaust reyndist ýmsum lögregluumdæmum erfitt að fá til starfa skólagengna lögreglumenn eftir að sumarorlofstíma lauk.
    Undanfarin ár hafa nokkrir tugir afleysingamanna verið starfandi árið um kring en nú er svo komið að aðeins eru starfandi tveir menn sem hvorki hafa lokið námi í Lögregluskóla eða eru í námi á fyrri önn. Er um að ræða einn lögreglumann í Höfn í Hornafirði og annan á Hólmavík sem tók til starfa í haust eftir að Lögregluskólinn var byrjaður og komst af þeim sökum ekki til skólans. Þá eru ótaldir þrír menn sem starfað hafa í meira en tíu ár og einn sem starfað hefur í sjö ár en hafa af einhverjum sökum aldrei lokið námi í Lögregluskóla. Þeir hafa á hinn bóginn sótt margvísleg námskeið í Lögregluskólanum.
    Ráðuneytið lítur svo á að lögin séu ekki afturvirk og þess vegna séu ekki efni til þess að víkja mönnum úr störfum sem ráðnir voru fyrir gildistöku laganna. Þá hefur ráðuneytið túlkað lögin á þann veg að heimilt sé að ráða nýliða til starfa þegar staða losnar enda verði sá nýliði sendur í Lögregluskólann svo fljótt sem kostur er á. Þetta atriði kann að vera umdeilanlegt, en þessi túlkun skiptir þó mjög miklu máli til þess að koma í veg fyrir röskun á löggæslustörfum, einkanlega í minni lögregluumdæmum.
    Á yfirliti sem ég hef undir höndum frá Lögregluskólanum kemur í ljós að sl. 10 ár hafa um 32 lögreglumenn að meðaltali lokið grunnnámi frá Lögregluskólanum en 28 lögreglumenn ef miðað er við sl. 25 ár. Menntun lögreglumanna kostar að sjálfsögðu peninga. Því er mjög mikilvægt að lögreglan njóti sem lengst starfa þeirra sem lokið hafa námi. Á sl. 10 árum hafa 329 menn lokið námi og af þeim eru 262 enn í starfi.
    Lögreglunemar af landsbyggðinni fá, meðan þeir eru í skólanum, auk fastra launa og vaktaálags, greidda dagpeninga um 120 þús. kr. á mánuði. Lætur nærri að það muni kosta um 47 millj. á árinu 1992 að mennta lögreglumenn í grunnnámi.
    Ég tel mjög mikilvægt að undirbúningur að starfi lögreglumanna sé sem vandaðastur og það er ærin ástæða til að verja fjármunum til að mennta og þjálfa lögreglumenn til þessara mikilvægu starfa og að sú breyting sem gerð var á með þessum lögum hafi verið merkt framfaraspor til að styrkja lögregluna.
    Ég vænti þess að mál þessi séu nú að komast í eðlilega framkvæmd í samræmi við lögin. Hitt er svo álitaefni, sem Alþingi verður að taka afstöðu til, hvort það sér við þessar aðstæður efni til að verja meiri fjármunum til Lögregluskólans þannig að hann geti útskrifað fleiri nemendur á ári hverju.