Loðnuveiðar

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:46:00 (738)

     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svar hans, þó hann væri að vísu ekki alfarið sammála þeim sjónarmiðum sem fram komu í fsp. Hann staðfesti hins vegar að fituinnihaldið er mest á haustmánuðum en fellur síðan verulega eftir áramótin, um 2% í hverjum mánuði. Af þessu má vissulega draga þá ályktun að það hljóti að fást mest fyrir fiskinn á haustmánuðum.
    Hins vegar brást hæstv. sjútvrh. vonum mínum með það að hann gerði enga tilraun til þess að reikna út hvernig þetta dæmi kæmi út og hver væri munurinn á þessu tvennu. Það hafa verið uppi fullyrðingar um það að á þessu tvennu sé verulegur munur, hvað miklu meira fæst fyrir fiskinn veiddan á haustmánuðum en að vetrarlagi, og ég hefði gjarnan viljað að menn hefðu glímt við að reikna þetta út. En því miður lá það ekki í svarinu.
    Hitt veit ég að það eru auðvitað mörg sjónarmið sem verið er að taka til í þessu samhengi og ég er ekkert að andmæla því sem hæstv. ráðherra sagði að það þarf kannski að taka tillit til fleiri sjónarmiða en nákvæmlega þeirra sem varða fituinnihaldið. En ég held það væri rétt að menn reyndu að reikna þetta dæmi út til enda og átta sig á því hvernig það kemur út. Í öllu falli held ég að meginniðurstaðan hljóti að vera sú að það sé best að leyfa veiðarnar þegar að sumri og láta það síðan ráðast hvort veiðist eða veiðist ekki en láta það ekki dragast fram á haustið eins og nú hefur gerst að veiðarnar geti hafist. Ég held að það hljóti að vera æskilegri stefna að þannig sé á málum haldið og í því skyni var fyrirspurnin fram borin að tækifæri gæfist til að vekja athygli á þessu.