Innheimta opinberra gjalda

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:55:00 (741)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Sem svör við fyrirspurnum á þskj. 79 vil ég segja þetta:
    Frá því fyrr á þessu ári hefur staðið yfir sérstakt átak til að bæta innheimtu opinberra gjalda. Hefur það enn sem komið er fyrst og fremst beinst að innheimtu virðisaukaskatts, staðgreiðslu tekjuskatts og launaskatts. Hefur ráðuneytið á þessu tímabili fylgst náið með innheimtu hjá hverju og einu innheimtuembætti, unnið upplýsingar úr ríkisbókhaldi og álagningarkerfum skattkerfisins. Innheimtumönnum eru reglulega sendar upplýsingar um þá aðila sem skulda verulegar fjárhæðir og óskað aðgerða þeirra og skýringa á skuldastöðu gjaldenda. Telja má víst að með þessu hafi náðst verulegur árangur þótt erfitt sé að mæla hann þar sem ekki er vitað hver framvinda hefði orðið án þessara aðgerða. Sem dæmi má nefna að af rúmlega 39 milljarða virðisaukaskatti sem lagður var á vegna viðskipta á árinu 1990 voru um 1,7 milljarðar útistandandi í byrjun maí sl. Í lok október hafði þessi tala þrátt fyrir viðbót vegna dráttarvaxta lækkað í tæplega 1,4 milljarða eða um 3,5% álagningarinnar.
    Enn fremur má nefna að ógreidd en gjaldfallin staðgreiðsla vegna áranna 1988--1990, að frátöldum skattaðilum sem komnir voru í gjaldþrot, lækkaði úr rúmlega 1 milljarði í júní í um 550 millj. kr. í október sl. Er það um 0,8% af gjaldfallinni staðgreiðslu þessara ára hjá öðrum en þeim sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta. Óafskrifaðar skuldir á þessum árum hjá aðilum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta námu á sama tíma um 1,45 milljörðum eða um 1,8% gjaldfallinnar staðgreiðslu. Áformað er að halda afram ströngu eftirliti með innheimtu. M.a. er ætlunin að koma upp kerfisbundnu mati á innheimtu allra stærri gjaldtegunda í hverju innheimtuumdæmi um sig og upplýsa innheimtumenn reglulega um stöðu umdæmisins og breytingar sem á henni verða.
    Það má geta þess að lokum varðandi fyrri fyrirspurnina að fjmrn. gaf fyrir skömmu út handbók um innheimtu opinberra gjalda og væntir ráðuneytið þess að hún verði til að auka skilvirkni innheimtu og auka samræmi í þessum efnum milli innheimtuembætta.
    Varðandi síðari fyrirspurnina vil ég segja þetta: Eins og fram kom á þskj. 962 á 113. löggjafarþingi Íslendinga sættu 9.400 einstaklingar og 2.900 lögaðilar áætlun gjaldstofna við álagningu opinberra gjalda árið 1990 vegna vöntunar skattframtala þeirra. Árlega eru það þess vegna, eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, um 10.000 aðilar sem senda kæru til skattstjóra eftir að álagning liggur fyrir. Á árinu 1990 barst skattstjórum alls 10.200 kærur. Þar af voru ný framtöl í stað áætlunar nálægt 3.000. Á árinu 1991 var fjöldi kæra 9.114. Þar af voru ný framtöl í stað áætlunar 2.700. Eftir lok kærufrests senda allmargir aðilar, eða um það bil 1.000--1.500 árlega, ný framtöl til ríkisskattstjóra og óska eftir að þau verði lögð til grundvallar álagningu í stað eldri áætlana. Þannig leiðréttist allt að helmingur framtala þeirra aðila sem sæta áætlun í frumálagningu á næstu árum þar á eftir. Eftir stendur allnokkur hópur sem ekki skilar framtali hvað sem á gengur.
    Hjá embætti ríkisskattstjóra hefur undanfarna mánuði verið unnið að undirbúningi að verulega breyttri framkvæmd álagningar á einstaklinga utan rekstrar. Þar er gert ráð fyrir að skattyfirvöld útbúi skattframtöl fyrir einstaklinga sem ekki stunda atvinnurekstur á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Það verður prentað á eyðublaðið. Tölvutæknin notuð og þannig sparaður mannafli. Með þeim hætti er tryggt að ýmsir aðilar, sem á undanförnum árum hafa ekki skilað skattframtali vegna sinnuleysis, munu ekki sæta áætlun í framtíðinni. Þó er ekki unnt að koma slíku fyrirkomulagi við hjá einstaklingum sem stunda atvinnurekstur þar sem bókhaldsskyldum aðilum ber að skila ársreikningi með skattframtali.
    Varðandi lögaðila sem hafa sætt áætlun þarf að taka fram að útbúið er áætlunarframtal fyrir allmarga lögaðila sem ekki eru beinlínis í rekstri. Í sumum tilfellum er áætlunarstofn á þá aðila 0 kr. Það á þó ekki við þá aðila sem skatturinn telur að stundi atvinnurekstur samkvæmt svokölluðum ytri gögnum.
    Virðulegur forseti. Almennt séð er það vissum erfiðleikum háð fyrir skattyfirvöld að knýja gjaldendur til að skila skattframtali. Mjög áberandi athygli er vakin á skilafresti skattyfirvalda einstaklinga utan rekstrar og jafnframt er öllum þeim sem hafa framtalsgerð að atvinnu veittur frestur með ýmsum skilyrðum. Öllum þeim aðilum er vitaskuld mætavel kunnugt um fresti sem skattyfirvöld hafa lögum samkvæmt eða eftir annarri ákvörðun til að taka á móti framtölum. Skattyfirvöld hafa í sjálfu sér engin önnur úrræði til að knýja fram skil á framtali en að uppfylla skilyrði laga um tekjuskatt og eignarskatt þar sem segir að skattstjóri skuli áætla tekjur og eign skattaðila svo ríflega að eigi sé hætta á að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær í raun og veru eru og ákveða skatta hans í samræmi við þá áætlun að teknu tilliti til álags skv. 106. gr. sömu laga. Þeim úrræðum er að sjálfsögðu beitt.