Heimild handa erlendum skipum til að landa í íslenskum höfnum

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:11:00 (745)

     Össur Skarphéðinsson :
     Frú forseti. Ég vildi aðeins láta það koma fram að þingmenn Alþfl. hafa ítrekað látið það uppi í fjölmiðlum síðustu vikur að þeir eru með í undirbúningi frv. sem lýtur einmitt að þessu efni. Mér var ekki kunnugt um að sjútvrh. eða ríkisstjórnin væru með slíkt frv. í undirbúningi. Ég taldi raunar að þær óljósu fregnir sem væru af breytingum á þessum lögum tækju einungis til þess fyrirhugaða samnings sem er nú að verða um Evrópskt efnahagssvæði og mundi þar af leiðandi einungis vera breyting sem leiddi til þess að skipum sem koma frá löndum sem eiga aðild að því svæði yrði þetta heimilt. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa þessa heimild mun víðtækari, þ.e. að veita einnig sovéskum og kanadískum skipum, sem hafa í gegnum árin sýnt áhuga á því að koma hingað til viðgerða og til að landa sínum fiski, slíka heimild. Og ég tel auðvitað eins og málum er nú komið að fyrir fiskmarkaði hér á Íslandi skipti þetta verulegu máli. Ég tel líka að þetta geti skipt miklu máli fyrir smiðjur víðs vegar um landið sem nú eiga í verulegum erfiðleikum.