Framhaldsdeildir við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:14:00 (747)

     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
     Virðulegi forseti. Í 1. gr. samnings um Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, sem gerður var milli heimaaðila og menntmrn., er heimild til þess að hluti skólastarfsins fari fram annars staðar innan Norðurlands vestra en á Sauðárkróki að uppfylltum þeim almennu skilyrðum sem ráðuneytið setur. Þar er, eins og kemur fram síðar í greininni, átt við framhaldsdeildir. Nú hefur þessi skóli óskað eftir að framhaldsdeildir verði settar á stofn á Blönduósi og í Siglufirði en því miður hefur enn ekki orðið af því. Þess vegna spyr ég: ,,Er þess ekki að vænta að menntaráðuneytið heimili rekstur framhaldsdeilda á Siglufirði og Blönduósi í tengslum við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra?``
    Í viðræðum skólans við ráðuneytið hefur komið fram sú afstaða að ráðuneytið borgi ekki í tilviki sem þessu fyrir húsnæði, rekstur og búnað framhaldsdeildanna ef þær verða starfræktar annars staðar en í höfuðstöðvunum, heldur einungis fyrir kennslukostnaðinn og að sveitarfélögin eigi að borga þennan kostnað alfarið, þ.e. húsnæðið, reksturinn og búnaðinn. Þetta kemur sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi vestra mjög spánskt fyrir sjónir. Menn sjá ekki að þetta sé í neinu samræmi við lög um framhaldsskóla og ég vil því biðja hæstv. ráðherra að víkja að þessari hlið málsins ef hann sér sér fært í svari sínu.
    Hér er um það að ræða að menn vilja koma upp almennri framhaldsdeild á Blönduósi sem er fyrsta ár bóknámsins og í Siglufirði er verið að tala um vélstjóranám og sjúkraliðanám. Það er skortur á sjúkraliðum á Norðurlandi, alveg sérstaklega í Siglufirði og reyndar víðar. Konur, sem hafa stundað nám í framhaldsdeild grunnskólans á Siglufirði, hafa mikinn hug á því að stunda þetta sjúkraliðanám þannig að það má segja að í báðum tilvikum sé alveg ljóst að það skorti ekki nemendur heldur er talsverð eftirspurn eftir því að komast í þetta framhaldsnám. Vandi sjúkrahúsa á svæðinu er talsverður og þarna er einmitt verið að reyna að ráða bót á viðvarandi vandamáli. Því virðist þetta vera mikið þjóðþrifafyrirtæki að ráðuneytið heimili þessar framhaldsdeildir. Þess vegna er spurt um þær hér.