Framhaldsdeildir við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:18:00 (748)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Svar mitt er svohljóðandi, fyrst varðandi framhaldsdeild við Grunnskóla Siglufjarðar.
    Framhaldsdeild hefur verið starfrækt við Grunnskóla Siglufjarðar undanfarin ár, að vísu með hléum þegar ekki hefur verið næg aðsókn að deildinni. Sl. sumar sóttu Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Grunnskóli Siglufjarðar um að fá að starfrækja bóklegt nám fyrir sjúkraliða við framhaldsdeildina frá og með hausti 1991. Þeirri beiðni var synjað vegna þess að ekki hafði verið gert ráð fyrir þeirri starfsemi á fjárlögum ársins.
    Einnig sótti skólinn um leyfi til að starfrækja tímabundna kennslu á vélstjórnarbraut. Þeirri beiðni var hafnað á sömu forsendu og sjúkraliðanáminu. Ráðuneytið telur vafasamt að unnt verði að verða við beiðni um sjúkraliðanám og vélstjórnarnám á næsta fjárlagaári nema viðbótarfjármagn fáist á fjárlögum til reksturs framhaldsdeilda.
    Varðandi framhaldsdeildina á Blönduósi vil ég segja þetta: Það hefur ekki komið fram formleg umsókn frá heimamönnum um stofnun framhaldsdeildar á Blönduósi samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá embættismönnum ráðuneytisins. Hins vegar komu forsvarsmenn sveitarfélagsins í ráðuneytið fyrir nokkru og spurðust fyrir um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að slíkri deild yrði komið upp.
    Það má gera ráð fyrir að ráðuneytið fjalli jákvætt um umsókn um stofnun framhaldsdeildar á Blönduósi ef þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur um rekstur slíkra deilda er fullnægt, þ.e. að umsóknir berist frá a.m.k. 15 nemendum og að kennslukraftar og aðstaða séu fyrir hendi.
    Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um að ráðuneytið greiddi ekki kostnað vegna húsnæðisrekstrar og búnaðar, heldur eingöngu kennslukostnað, þá þekki ég ekki þá afstöðu ráðuneytisins en skal kynna mér hana. En ástæða synjunarinnar í þessu tilviki er sem sagt önnur; framlög voru ekki á fjárlögum og eru ekki í fjárlagafrv. en það getur auðvitað staðið til frekari athugunar. Það er sem sagt ástæða synjunarinnar.