Röðun mála á dagskrá fyrirspurnafunda

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:25:00 (751)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Það er von að forseti hafi orðið undrandi. En það sem mér liggur á hjarta þegar þessum fyrirspurnatíma er nú lokið er þetta:
    Eins og mönnum er kunnugt hafa þingmenn verið leystir undan þeirri kvöð að sitja fyrirspurnafundi ef þeir eiga ekki mál á dagskránni eða hafa ekki áhuga á að fylgjast með umræðum. Nú er það þannig með ráðherra, a.m.k. með mig, að ég tel mig hafa allt annað og þarfara með minn tíma að gera en að sitja hér undir fyrirspurnum og svörum við þeim sem koma ekki mínu ráðuneyti við eða vekja ekki áhuga minn. Þess vegna fer ég þess vinsamlegast á leit við forseta að forseti raði á dagskrána þannig að mál ráðherra komi í röð. Ég sé alveg hvernig forseti raðar á dagskrána og það er mjög eðlilegt í hlaupandi númeraröð mála. En forseti hefur vald til þess að breyta röðinni, hefur reyndar gert það í dag einu sinni í samráði við mig en tvisvar sinnum ekki og þetta varð til þess að ég hef þurft að sitja hér frá því kl. 10.30 og til kl. að verða 12.30. Ég er ósáttur við þetta og vænti þess að forseti taki þessa vinsamlegu beiðni mína til greina.