Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 13:04:00 (757)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
     Frú forseti. Ég vil þakka þá yfirlýsingu sem frú forseti gaf hér á forsetastóli. Ég tel að frú forseti hafi tekið af öll tvímæli um það að ásakanir þær um svik á gerðum samningum frá hendi okkar formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar, sem fram voru settar í grein hv. 3. þm. Reykv., eins af varaforsetum þingsins, í Morgunblaðinu í gær, séu þar með úrskurðaðar ómerkar. Ég hef ekkert á móti því að mæta til samráðsfunda á skrifstofu frú forseta, enda er það upplýst að það er einkaskrifstofa frú forseta en ekki sameiginlegt afdrep forsetadæmisins. Þar af leiðir að ég tel að nægilegt sé að samráðsfundir séu bókaðir af starfsmönnum þingins og niðurstöður undirritaðar.
    Jafnframt vil ég að fram komi að við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar viljum gera allt sem við getum til að hér ríki bætt andrúmsloft í þinginu, betra andrúmsloft

en verið hefur um skeið. Hér eru komnir til starfa á Alþingi aðilar sem hafa haft önnur vinnubrögð í samskiptum við stjórnarandstöðu nú í haust heldur en tíðkast hafa hér á undanförnum árum. Ég vil vona að þeir sjái að sér og sannfærist um að farsælt stjórnmálastarf felst ekki í því að berja sífellt á andstæðingunum eða neyta alltaf ýtrasta aflsmunar. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja að taka í sáttahendur ef réttar verða fram og læt í ljósi þá von að svo verði gert.
    Kærar þakkir fyrir yfirlýsinguna, frú forseti.