Lánsfjárlög 1992

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 14:31:00 (761)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég tók ræðu hæstv. viðskrh. áðan þannig að hann væri að reyna að smeygja sér út úr umræðunni og setja punktinn á eftir þessari vaxtaumræðu sem hér hefur verið, en stundum geta menn farið einum of lipurlega að hlutunum og ég held að hæstv. viðskrh. hafi reyndar orðið það á áðan. Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé mjög mikilvæg umræða og ég mun halda áfram hér á hinu háa Alþingi þessari umræðu um vaxtamálin, vaxta- og peningapólitíkina eins og hún stendur núna, þangað til ég sé að á því verði tekið.
    Ég vil leyfa mér að segja það hér að ástandið er svo alvarlegt núna að við getum ekki beðið eftir bjargræðinu að utan, þ.e. samkeppni erlendis frá. Við getum ekki heldur beðið eftir að okkur takist að koma því skikki á ríkisfjármálin og húsbréfamarkaðinn eins og staðan er í dag. Ef menn treysta sér ekki til að beita handafli verða menn að fara í næsta stig við sem eftir viðræður okkar í efh.- og viðskn., bæði við Þjóðhagsstofnun og Seðlabankann, heitir það að beita fortölum. Mér skildist að á mælikvarða aðgerða í peningamálum væri handaflið efst og síðan kæmu fortölurnar og ég verð þá að fara þess á leit við hæstv. ríkisstjórn að nú beiti hún þeim aðgerðum í alvöru og bankastofnunum og fjármálayfirvöldum verði sýnt fram á, svo að eftir verði tekið, að þetta ástand sem nú er verði ekki liðið.
    Ég ætla að koma í örfáum orðum að varnarræðu bankakerfisins sem var flutt áðan af hv. 5. þm. Suðurl., bankaráðsformanni Búnaðarbankans. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, en hann fór yfir það hvernig vaxtakjörin hafa þróast á yfirstandandi ári. Ég ætla, með leyfi forseta, að fara yfir það á eilítið annan hátt. Ég ætla að taka nafnvextina eins og þeir hafa þróast á þessu ári. Þeir voru á fyrsta ársfjórðungi 15%, öðrum ársfjórðungi 16,6%, þriðja ársfjórðungi 20,7% og það stefnir í að þeir verði 19,2% á fjórða ársfjórðungi. Nú ætla ég að leggja þetta á eilítið aðra mælistiku en hv. 5. þm. Suðurl. gerði áðan. Ég ætla að leggja þetta á mælistiku fyrirtækja á innlendum markaði --- ég ætla að taka landbúnaðinn sem hefur verið að lækka sitt afurðaverð í hlutfalli við annað verð á síðustu tveimur árum, hefur þar af leiðandi ekki komið neinu af auknum kostnaði út í verðlagið. Ég ætla að taka sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa á seinni hluta þessa árs búið við lækkandi afurðaverð erlendis og hvað þetta þýðir gagnvart þeim fjármunum sem þau hafa þurft að taka innan lands. Þetta þýðir einfaldlega það að þessir aðilar eru ekki að greiða neitt sem heitir 10,5%, 3%, 11,9% og hugsanlega 15,8% raunvexti á þessu ári, heldur eru þeir að greiða sem næst 15% raunvexti á fyrsta ársfjórðungi, á öðrum ársfjórðungi 16,6%, á þriðja ársfjórðungi 20,7% og á fjórða ársfjórðungi 19,2%. Ef við tökum ekki mið af hinni almennu vísitölu heldur tökum vísitölu afurðaverðs þessara fyrirtækja lítur málið svona út. Málið er í dag það alvarlegt að gangi þessi spá um raunvexti eftir síðustu mánuði þessa árs er það það sem getur skilið á milli lífs og dauða hjá fjöldanum öllum af fyrirtækjum og á þessu verður að taka.
    Ég viðurkenni að það er vissulega samkeppni hér innan lands um þetta fjármagn. Það sem ég sagði í ræðu minni í gær var það að sá rammi og þau skilyrði sem við búum við eru það þröng að þessi markaður hefur ekki náð að þróast. Hv. 5. þm. Suðurl. nefndi áðan að Búnaðarbankinn væri með eilítið lægri vexti í dag aðrir bankar, hann nefndi Íslandsbanka og Landsbankann. Ég ætla ekki að gera Íslandsbanka að umræðuefni, en ég held að við verðum í þessu sambandi að skoða líka aðeins samsetningu útlánanna, á hvaða markaði menn eru að vinna. Og ég verð að segja það að í þessu máli er samúð mín miklu meiri með Landsbankanum sem er með allan þungann af frumatvinnuvegunum á sínum herðum og hefur, eins og kom fram í máli bankastjóra Landsbankans nú nýverið, þurft að leggja milljarða í afskriftasjóði sem segir okkur aðra sögu um stjórn efnahagsmálanna sem ég ætla ekki að fara hér í.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar, en að lokum, í ljósi þeirra talna sem ég nefndi áðan um hinar mismunandi vísitölur og hvað það getur verið hættulegt að bera hlutina á mælistiku framfærsluvísitölunnar eða lánskjaravísitölunnar, eins og hér var gert, ítreka ég að ekkert eitt atriði er eins mikilvægt, bæði fyrir heimilin og reksturinn, varðandi þessi mál og það að okkur takist að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Ég sé því miður ýmis teikn á lofti um það að núv. hæstv. ríkisstjórn muni ekki bera gæfu til að feta í fótspor fyrri ríkisstjórnar varðandi þá vinnu sem var hafin við gerð þjóðarsáttarsamninganna. Ég ætla ekki að fara út í það frekar hér. En þetta er atriði í mínum huga frá 1--10 varðandi það að okkur takist að koma einhverju skikki á þessi mál.