Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:54:00 (772)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Sú utandagskrárumræða sem hér fer fram um stefnu ríkisstjórnarinnar í kjaramálum, eins og hún birtist í plaggi frá samninganefnd ríkisins, dags. 29. okt. sl., er að mínu mati í senn svo mikilvæg og svo aðkallandi að ég fór fram á það við hæstv. forseta að hún færi fram skv. 2. mgr. 50. gr. þingskapalaga. Vegna þess vanda sem við er að etja í störfum þingsins sem og vegna fjarveru hæstv. fjmrh. í næstu viku varð ég við eindregnum tilmælum forseta um að umræðan færi fram skv. 1. mgr. 50. gr. Ég tel að með þessu hafi ég sýnt og sannað að stjórnarandstaðan vill greiða fyrir þingstörfum. En æ sér gjöf til gjalda og ég vil gera þá kröfu til hæstv. fjmrh. að hann nýti sinn skamma tíma vel og svari því sem um er spurt en drepi málinu ekki á dreif.
    Það vita allir, sem eitthvað vita á annað borð, að samningsréttur launafólks er hjá einstökum stéttarfélögum en ekki heildarsamtökum þeirra. Nú um nokkurra ára skeið hefur hins vegar svokallað heildarsamflot verið viðhaft í kjarasamningum og þar af leiðandi hafa einstök félög ekki fengið sín sérmál rædd og mörg mál bíða leiðréttingar. Hafa félög opinberra starfsmanna nú lagt fram sínar kröfur og fundað stíft um þær með samninganefnd ríkisins að undanförnu. Svör samningnefndar ríkisins við þessum kröfum hafa öll verið á einn veg og þau birtast í hnotskurn í fyrrnefndu plaggi frá 29. okt. Þar segir m.a. í 9. lið, með leyfi forseta:
    ,,Samninganefnd ríkisins er ekki reiðubúin til samninga um nein atriði sem fela í sér hækkun heildarlauna til einstakra stéttarfélaga umfram önnur. Við núverandi aðstæður er samninganefnd ríkisins þó ekki reiðubúin til samninga við einstaka viðsemjendur um breytingar á fyrirkomulagi vinnu eða á öðrum atriðum sem leitt gætu til útgjaldaauka fyrir ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki.``
    Og nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh., sem virtist hafa svo mikinn skilning á vandamálum einstakra félaga í umræðum hér á Alþingi þann 11. des. sl., hvort þessi yfirlýsing jafngildi því að verið sé að beina yfirstandandi samningaviðræðum inn á braut heildarsamflots. Hvort í raun sé verið að þumbast við og hunsa rétt einstakra félaga til að ganga frá eigin samningum.
    Við höfum orðið þess áskynja að þessi ríkisstjórn er frek til fjörsins og vill fá allt fyrir ekki neitt, líka í kjaramálum. Samninganefnd hennar flytur nú opinberum starfsmönnum þann boðskap að geti þeir reytt einhver réttindi af sjálfum sér sé samninganefndin til

viðtals um að láta einhverja mola hrjóta til þeirra á móti. Mest virðast fulltrúar ríkisstjórnarinnar girnast ýmis félagsleg réttindi, svo sem fæðingarorlofið. Þeir vilja jafna réttarstöðu allra launþega hvað það varðar og að gefnum þeim forsendum sem ríkisstjórnin vinnur eftir verður það tæplega skilið á annan hátt en þann að þeir vilji skerða þann rétt til fæðingarorlofs sem konur í hópi opinberra starfsmanna njóta nú. Þeir vilja jafna niður á við. Sé þetta rangt skilið hjá mér bið ég hæstv. fjmrh. endilega að leiðrétta mig.
    Í einlægni vil ég svo spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji þetta til þess fallið að bæta kjör og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Er þetta efniviður í velferð fjölskyldnanna, velferð á varanlegum grunni?
    Þann 11. des. sl. varð hæstv. ráðherra, sem og öðrum sjálfstæðismönnum sem nú verma ráðherrastóla, tíðrætt um siðleysi fyrrv. ríkisstjórnar gagnvart félagsmönnum BHMR. Því vil ég líka spyrja hvort ráðherrann hyggist ekki vinda bráðan bug að því að efna þau ákvæði kjarasamnings BHMR sem enn liggja óbætt hjá garði og voru þó ekki felld úr gildi með þeim ólögum sem hann og fleiri gagnrýndu harkalega. Eða á kannski að fella þau niður, eins og lagt er til í 23. efnisatriði í plaggi samninganefndar ríkisins?
    Virðulegi forseti, ég hef beint máli mínu til hæstv. fjmrh. en ég hlýt líka að gera þá kröfu til ráðherra og þingmanna Jafnaðarmannaflokks Íslands að þeir útskýri stefnu síns flokks í kjaramálum enda mun formaður samninganefndar ríkisins vera þeirra maður.