Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:02:00 (776)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Hér er hreyft einu mikilvægasta máli sem er til umræðu í þjóðfélaginu í dag. Menn standa frammi fyrir því að flutningar frá landinu eru að stöðvast, útflutningsgreinarnar munu þá fljótlega stöðvast og það liggur í loftinu mikið ósætti milli ríkisvalds annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar.
    Það er ekki nóg að það sé vont andrúmsloft hér á Alþingi. Það er nefnilega þannig að andrúmsloftið hér er nokkurs konar endurspeglun af andrúmsloftinu í samfélaginu. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh.: Með hvaða hætti ætlar núv. ríkisstjórn að koma að þeim kjarasamningum sem nú standa yfir, ekki bara við opinbera starfsmenn heldur í samfélaginu almennt? Ætlar ríkisstjórnin með ríkisfjármálum að setja fram einhver þau tilboð sem gætu stuðlað að kjarasamningum, t.d. í skattastefnu sinni sem er mjög óljós og fjmrh. hefur upplýst að það sé ekki hægt að segja mikið til um? Ætlar ríkisstjórnin að leggja meira á sig til þess að koma fram vaxtalækkun? Og ætlar ríkisstjórnin að hætta við að skattleggja framleiðsluatvinnuvegina sérstaklega þannig að þeir geti staðið undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar?
    Þetta eru mikil lykilatriði sem ekki er hægt að gera skil á tveimur mínútum hér á Alþingi. Við hljótum að reikna með því að mjög fljótlega fari hér fram alvarleg umræða um það ástand sem þarna hefur skapast.
    Ég skora á hæstv. fjmrh. að koma með yfirlýsingar hér á Alþingi sem geta bent til þess að ríkisstjórnin vilji af alvöru greiða fyrir gerð kjarasamninga á næstunni því að samfélagið almennt gerir ekki ráð fyrir því.