Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:04:00 (777)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur gengið á ýmsu í samskiptum ríkisvaldsins við opinbera starfsmenn og það verður ekki annað sagt en að þau mál öll séu í heldur slæmum farvegi. Við höfum m.a. horft upp á fyrrv. fjmrh. hleypa öllu í bál og brand með ógætilegum ummælum og draga þannig verkföll á langinn. Við höfum heyrt óhróður um heilu stéttirnar sem vinna hjá ríkinu, að ekki sé minnst á hin illræmdu bráðabirgðalög á BHMR. Þó held ég að það plagg, sem samninganefnd ríkisins hefur nú lagt fram sem umræðugrundvöll, slái öll met í yfirgengilegum hroka og skilningsleysi á kjörum fólks og þeim réttindum sem opinberir starfsmenn eins og annað launafólk hafa öðlast með áratuga baráttu.
    Áður en samningaviðræður hefjast er lýst yfir styrjöld á hendur félögum í BSRB og BHMR því að það er ekki hægt að líta á þetta dæmalausa plagg öðruvísi en sem stríðsyfirlýsingu. Samninganefnd ríkisins lýsir því yfir að jöfnuður sé hornsteinn stefnu ríkisstjórnarinnar. En hvernig á að ná þeim jöfnuði? Með því að svipta opinbera starfsmenn réttindum. Með því að neita alfarið allri uppstokkun á því óréttláta launakerfi sem nú er við lýði hjá ríkinu og bitnar harðast á konum. Og með því að auka framleiðni í opinberum rekstri.
    Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að skýra fyrir þingheimi hvernig hann hugsar sér að auka framleiðni hjá hinu opinbera? Er hægt að nota þennan mælikvarða, svona færibandahugsun á þá þjónustu sem ríkið veitir? Hvernig á t.d. að bæta framleiðni í skólakerfinu?
    Laun á hvorki að hækka né leiðrétta samkvæmt þessu plaggi og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann trúi því að þessi stefna gangi upp. Trúir hann því að hægt sé að bjóða starfsmönnum ríkisins upp á kaupmáttarrýrnun, ráðningar án þeirra lífseyrisréttinda sem opinberir starfsmenn nú njóta o.s.frv.? Trúir hann því að yfirlýsingar af þessu tagi leiði til samninga og jöfnuðar?
    Virðulegi forseti. Hér er illa af stað farið og því miður er að hefjast enn eitt stríð ríkisstjórnar við starfsmenn sína. Ég skora á hæstv. fjmrh. að draga þennan svokallaða umræðugrundvöll til baka og hefja viðræður við opinbera starfsmenn í vinsemd og með virðingu. Það eitt getur leitt til árangurs.