Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:07:00 (778)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Við skulum ekki vanmeta þann árangur sem náðst hefur. Þjóðarsáttarsamningarnir hafa skilað meiri kaupmætti en samið var um í þeim samningum. Það er í fyrsta skipti svo að ég viti til að verkalýðshreyfingu og vinnuveitendum hafi tekist að gera kjarasamning sem hefur náð meiri árangri heldur en stefnt var að við gerð hans. Kaupmáttur dagvinnulauna ríkisstarfsmanna er nú að meðaltali --- og auðvitað eru gallar á öllum meðaltalsútreikningum, það þekkjum við --- 2% meiri en gert var ráð fyrir í þjóðarsáttarsamningunum að hann yrði við lok samningstímans. Og allan samningstímann hefur kaupmáttur dagvinnulauna ríkisstarfsmanna verið meiri en forsendur þjóðarsáttarsamninganna gerðu ráð fyrir.
    Það er ekki rétt að halda því fram að þjóðarsáttarsamningarnir hafi þýtt fórnir fyrir launafólk. Þjóðarsáttarsamningarnir hafa þvert á móti skilað launafólki kaupmáttaraukningu umfram það sem gert var ráð fyrir á tímum samdráttar í þjóðarbúskapnum. Það er árangur sem er vert að minnast á að á sama tíma og þjóðartekjur lækka um 2--3% skuli kaupmáttur geta aukist umfram forsendur samninga um 2%. Það er árangur sem ekki er ástæða til að vanvirða. Og það er líka árangur að í heil tvö ár skuli matvara á Íslandi ekki hafa hækkað nema um 5,4% og mjólkurvörur á tveimur árum lækkað um 0,9%. Það er þennan árangur sem verður að varðveita og við verðum auðvitað að gera okkur fulla grein fyrir því að á tímum þegar áframhaldandi samdráttur í þjóðartekjum er líklegur er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Ef menn ætla að bæta kjör, eins og þarf að gera, þá gera menn það ekki örðuvísi en að hálaunahóparnir séu tilbúnir að gefa af sínu til þess að láglaunahóparnir geti notið þess. Og þá er spurningin þessi, ekki bara til ríkisstjórnar heldur til aðila vinnumarkaðarins og samtaka launafólks: Eru samtök launafólks reiðubúin til að móta þá stefnu að láglaunafólkið skuli hafa forgang í þessari kjarasamningagerð? (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Aðeins eina setningu að lokum. Hvað halda menn að ríkisstjórnin sé að gera þegar hún er að leitast við að lækka útgjöld ríkisins? Hún er að létta þrýstingi ríkissjóðs af lánamarkaðnum í þeim tilgangi að koma vöxtum niður. Með þeim aðgerðum er hún að reyna að styrkja grundvöll kjarasamninga í haust. Það er vísasti vegurinn til þess að greiða fyrir kjarasamningum að fá vextina niður. Þetta er ein aðferðin sem dugar til þess.