Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:10:00 (779)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir vonbrigðum mínum með litla þátttöku í þessari utandagskrárumræðu og jafna því við þá umræðu sem átti sér stað um handboltahöll hér í þinginu um daginn þar sem menn ruddust hver um annan þveran í þessa pontu til að tjá sig um það mál. Hér kemur þetta brýna mál upp sem eru kjaramálin, sem algjör pattstaða er í núna og þokast ekkert, launafólki hefur í rauninni verið sagt að éta það sem úti frýs og þingmenn virðast hafa afskaplega takmarkaðan áhuga.
    Hér er talað um þjóðarsátt en hver er sáttin sem ríkisstjórnin býður núna? Hún býður í rauninni upp á það að ríkisstjórnin fái ávinninginn af því sem gert verður, hún fái líka að verja þessum ávinningi en launafólk fái að vinna fyrir honum og greiða hann. Eins og ég sagði áðan vill hún allt fyrir ekkert.
    Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. áðan að mikilvægt væri að ná stöðugleika, lítilli verðbólgu og að lækka vexti. Hann talaði líka um að verja kjör hinna lægst launuðu. Um þetta geta allir verið sammála. En hver á að greiða þetta? Það er launafólkið sem á að greiða þetta með kaupmáttarskerðingu því að það er ljóst að það verður kaupmáttarskerðing hjá öllum, ekki bara þeim sem hafa hæstu launin heldur líka og ekki síst þeim sem

vinna samkvæmt töxtum, ef engar kauphækkanir koma til. Við þurfum ekki annað en horfa á þau þjónustugjöld sem þessi ríkisstjórn ætlar að leggja á og munu nema um 18 þús. kr. á hverja vísitölufjölskyldu í landinu. Það segir sig sjálft, bara það þýðir talsverða kaupmáttarskerðingu fyrir fólk.
    Það er talað fjálglega um að verja kjör hinna lægst launuðu en þá lægst launuðu er m.a. að finna í hópi opinberra starfsmanna, í hópi kvenna hjá hinu opinbera. Það eru þær sem taka laun samkvæmt taxta, það eru þær sem fá mun minni fríðindi af öllu tagi en karlar, það eru þær sem fá minni yfirvinnu eða geta síður sinnt yfirvinnu og taka því laun samkvæmt töxtum og hafa einungis sín dagvinnulaun. Þetta kalla ég m.a. að jafna niður á við, þegar halda á þessu öllu í fjötrum. Síðan eiga atvinnurekendur og reyndar ríkisvald, því að það er boðað, að hafa svigrúm til að hækka þá sem þeim eru þóknanlegir og sem helst geta varið ótakmörkuðum tíma í þágu síns atvinnurekanda. Þetta kalla ég að jafna niður á við. Það kom reyndar fram hjá hæstv. fjmrh. að ekkert slíkt væri sagt um fæðingarorlofið, en ef við gefum okkur það að ríkisstjórnin boðar að hún ætli ekki að auka útgjöld, hún ætlar ekki að auka útgjöld á fjárlögum, þá þýðir það væntanlega að ekki er verið að toga fólk upp, það á ekkert að hækka það sem greitt er öðrum í fæðingarorlof heldur reyna að ná einhverju af hinum.
    Hér hefur aðeins verið komið inn á aukna framleiðni og það er eitt sem er dálítið sérkennilegt í þessu plaggi stjórnarinnar því að ef fyrirtæki ná aukinni framleiðni, þá á eitthvað að hrjóta til starfsmannanna. (Forseti hringir.) Hvað með þau fyrirtæki --- ef við gefum okkur það að einhver opinber fyrirtæki séu vel rekin, séu með hámarksframleiðni, tökum skólana þar sem er ákveðinn fjöldi nemenda pr. kennara. Hvað með þá hópa? Hvers eiga þeir að gjalda?
    Ég lýsi því hér yfir eins og aðrir að þetta plagg er í rauninni makalaust og ríkisstjórnin ætti að sjá sóma sinn í því að draga það til baka. Svo hlýt ég að óska eftir því að við fáum betra tóm og betri tíma að ræða þessi mál síðar.