Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:19:00 (782)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Karl Steinar Guðnason hafa komið hér upp og sagt að mikilvægt sé að viðhalda þjóðarsátt. Ég tek undir það að sú þjóðarsátt sem tókst, hverjum svo sem það var að þakka, hefur fært þjóðinni kjarabætur. Það má vel vera að hv. þm. Karl Steinar Guðnason gefi ekki mikið fyrir þátttöku ríkisstjórna í slíkri þjóðarsátt, en það þarf þó a.m.k. að vera með þeim hætti að starfandi ríkisstjórn komi ekki í veg fyrir að þjóðarsátt náist og framkvæmi ekki þær athafnir sem geti orðið til þess að það sé gjörsamlega útilokað að ná samkomulagi í landinu. Það er nefnilega ekki nóg með það, hv. þm. Karl Steinar Guðnason og hæstv. heilbrrh., að ríkisstjórnin hreyti út úr sér hér á Alþingi heldur gerir hún það líka yfir þjóðfélagið allt. Halda menn t.d. að sú umræða sem á sér stað um Byggðastofnun og þær væntingar sem menn hafa á þeim bæ --- því að þessi stofnun hefur hjálpað til í mjög mörgum tilvikum --- greiði fyrir þjóðarsátt? Heldur hæstv. heilbrrh. að það sé alveg sama hvernig ríkisútgjöldin eru skorin niður, við hvern það kemur? Ég veit að hæstv. heilbrrh. hefur orðið var við annað. Það er þetta framferði ríkisstjórnarinnar sem er að spilla fyrir þjóðarsátt. Heldur hæstv. fjmrh. að það sé alveg sama hvernig skattahækkanir hans munu koma til með að líta út? Það veit að vísu enginn. Ég fullyrði að núverandi ríkisstjórn er --- vætnanlega óafvitandi, ég trúi því --- að spilla mjög fyrir því að þjóðarsátt geti náðst. Hvort sem hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni líkar það betur eða verr er það mikilvægast af öllu að hann haldi þessari ríkisstjórn við efnið og komi í veg fyrir að hún sé að hreyta út úr sér út og suður orðum og athöfnum sem spilla fyrir því að samkomulag geti náðst á vinnumarkaði.