Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:26:00 (784)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Eitt mikilvægasta og viðkvæmasta mál hér á hv. Alþingi er að skipta vegafé milli kjördæma og innan kjördæma. Þannig háttar t.d. til á Austurlandi að ástand vega er þar afar slæmt og um sl. áramót voru 513 km af stofnbrautum landsfjórðungsins ekki með slitlagi, þar er einangrun byggðarlaga og í þriðja lagi hefur ekki verið lokið við tengingu landshlutans um Norðurland.
    Hæstv. samgrh. kom í fjölmiðla fyrir nokkru síðan og tilkynnti að hans skoðun væri að frekari jarðgangagerð á Austurlandi eigi að fresta og forgangsverkefni verði að vera tenging Norðurlands og Austurlands. Það er vissulega mikilvægt verkefni. Hæstv. ráðherra sagði hins vegar jafnframt: Þingmenn hafa ráðið því, þ.e. skiptingu vegafjár, og þá hafa þeir yfirleitt hugsað um kjördæmi í þröngum skilningi, og það hefur líka verið athyglisvert að þingmenn hafa ekki haft neinn skilning á því hverjar séu þarfir ferðaþjónustu.
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Við hvaða þingmenn á hann? Á hann e.t.v. við sjálfan sig? Og öðlaðist hann alveg nýjan skilning við það að setjast í ráðherrastól?
    Ég spyr í öðru lagi: Verður þessi nýi skilningur ráðherrans fyrst og fremst hafður að leiðarljósi í sambandi við skiptingu vegafjár? Skipta samgöngur milli byggðarlaga í kjördæmum ekki miklu máli að hans mati? Hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að þingmenn kjördæmanna og Alþingi hafi minna að segja um skiptingu vegafjár vegna þessa skilningsleysis þeirra? Telur ráðherrann að vetrarsamgöngur byggða á Austurlandi séu betur staddar en í ýmsum öðrum landsfjórðungum og þá sérstaklega þeim landsfjórðungum þar sem ráðist hefur verið í jarðgöng? Og ég vil að lokum spyrja ráðherrann: Telur hann mikilvægara, vegna þess að hann orðaði það líka, að leggja veg yfir Sprengisand en að ráðast í jarðgöng á Austurlandi til þess að auðvelda vetrarsamgöngur?
    Þetta eru afar viðkvæm og mikilvæg mál og ég undrast að hæstv. samgrh. skuli leyfa sér, með þeim hætti sem hann hefur gert, að gera lítið úr starfi þingmanna kjördæma í sambandi við skiptingu vegafjár og minna hann á það að hér er um viðkvæmt mál að ræða sem við leggjum okkur fram um að ná samstöðu um. Það höfum við þingmenn Austurl. gert fram að þessu og þurfum ekki leiðbeiningar hans í því sambandi.