Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:28:00 (785)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Ræða hv. 1. þm. Austurl. kemur mér mjög mikið á óvart. Í fyrsta lagi veit hann jafn vel og ég að það er með sumar stórframkvæmdir, hvort sem við tölum um jarðgöng eða að brúa stórfljót á Suðurlandi eða hvort við tölum um að koma vegi yfir Holtavörðuheiði, að fé til þeirra er tekið af almennu vegafé og með almennu samkomulagi í þinginu. Sá var líka skilningur þeirra þingmanna sem sátu í veganefndinni á síðasta vetri að nauðsynlegt væri að líta þeim augum á öræfin milli Norðurlands og Austurlands og segir í athugasemdum með till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð sem lögð var fram meðan hv. þm. var ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Tenging Norðurlands og Austurlands um Möðrudalsöræfi hefur verið mikið rædd í starfshópnum. Á þessu stigi liggur ekki fyrir ákveðin tillaga um hvar framtíðarvegur muni liggja. Starfshópurinn leggur áherslu á að niðurstaða fáist fyrir næstu endurskoðun langtímaáætlunar, og þá verði tekin afstaða til þess hvernig með hana skuli farið.``
    Það sem ég talaði um fyrir norðan var ekki meira en það að hugur minn stæði til þess að hægt væri að ráðast í þetta verkefni eftir að lyki jarðgöngum fyrir vestan, og nú skal ég líka rifja upp hvernig ríkisstjórn hv. þm. stóð að jarðgöngunum fyrir austan sem hann er nú að æsa sig yfir.
    Það er fyrst á árinu 1998 sem eitthvert fé að marki er lagt til jarðganga á Austurlandi. Það er talið að jarðgöng sem rjúfi einangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar kosti um það bil 6 milljarða kr., en ef við leggjum saman það fjármagn sem í langtímaáætlun er ætlað til þessara framkvæmda er það um 2,5 milljarðar kr.
    Og þá erum við komin aftur að árinu 1991. Ég held að það sé mjög athyglisverð uppástunga hjá hv. 1. þm. Austurl. ef hann hugsar sér það að beðið verði með að tengja Norðurland og Austurland þangað til tekist hefur að ljúka þeim jarðgöngum sem verið er að tala um í sambandi við Norðfjörð og Seyðisfjörð.