Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:36:00 (788)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það mál sem hér er rætt varðar fleiri en okkur Austfirðinga þó að við stöndum eðlilega upp á þingi og mótmælum inngripum hæstv. samgrh. í ákvarðanir sem hafa verið mótaðar í góðu samkomulagi, að ég hélt, þangað til hann kemur fram með það sem hann vill kalla nýja stefnumótun í þessum málum, tekna fyrir hönd --- ja, hverra? Fyrir hönd hverra? Er hæstv. ráðherra að mæla fyrir hönd Austfirðinga? Ég leyfi mér að draga það í efa og ég ráðlegg hæstv. ráðherra að heimsækja Austurland og ræða við menn í fjarðabyggðum eystra og á Vopnafirði um sínar hugmyndir. Það er auðvitað ágætt ef, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl., ríkisstjórnin bætir í og ætlar að standa í hvoru tveggja.
    Það er hins vegar ekki það sem hæstv. ráðherra er að boða. Hann ætlar að breyta framkvæmdaröð og þetta er gert í nafni ferðaþjónustu sem hæstv. ráðherra hefur öðlast nýja sýn til og nýjan skilning á eftir að hann stöðvaði lagafrv., gekk í það öðrum fremur í Sjálfstfl., sem sjálfstæðismenn í neðri deild þingsins voru í fyrravetur búnir að samþykkja. Það hefði kannski orðið ferðaþjónustu á Íslandi til nokkurs framdráttar en var stöðvað í efri deild þingsins með atbeina núv. hæstv. samgrh. Mér finnst þetta furðulegar yfirlýsingar og er afar undrandi á jafnskynsömum manni og ég tel hæstv. samgrh. vera þegar hann leyfir sér þann munað að líta í eigin barm og hugsa rólega um málin. Ég vara þingmenn almennt við ef ráðherrar í ríkisstjórninni ætla sér með þessum hætti að fara inn á svið sem hefur verið verkefni þingmanna í kjördæmunum og ganga þvert á gerðar samþykktir.