Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:44:00 (791)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það er rétt að taka undir það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vestf. og geta þess hér rækilega að Vestfirðingar nutu stuðnings Austfirðinga á sínum tíma þegar var verið að setja niður röð framkvæmda í jarðgöngum. ( EgJ: Fengu þeir ekki stuðning allra alþingismanna?) Það getur verið, hv. þm., að svo hafi verið, en mér er kunnugt um það úr mínu starfi sem sveitarstjórnarmaður að menn lögðu nokkuð á sig fyrir nokkrum árum, Austfirðingar og Vestfirðingar, að ná sama um tillögu að röð og það greiddi mjög fyrir þeirri framkvæmd sem er að hefjast á Vestfjörðum.
    Ég vil líka láta það koma fram að um þessar framkvæmdir hefur verið rætt. Það sem ég hef heyrt um það er að menn hafa lagt þessar framkvæmdir þannig upp að unnið yrði í samfellu, að menn hæfu framkvæmdir við Austfjarðagöng þegar hinum framkvæmdunum lyki. Þannig hefur þetta verið þar sem ég hef komið að þessu máli og ég vildi láta koma fram að þannig tel ég að eigi að standa að málum og það eigi að hefja framkvæmdir á Austfjörðum þegar hinum lýkur.
    Hins vegar er ýmislegt á borðum þessarar ríkisstjórnar sem gerir það að verkum að það er ekki líklegt að menn sjái fram á að hafnar verði framkvæmdir á borð við jarðgöng á Austfjörðum bara af því einu að menn eru að skera niður fé til vegamála samkvæmt nýsamþykktri vegáætlun í mars sl. Sá niðurskurður, einn og sér, gerir það að verkum að

menn eru að ýta framkvæmd þessari út af borðinu. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, virðulegi forseti, að fjármagna Vestfjarðagöngin eingöngu með vegafé gerir það að verkum að menn verða að taka 500 millj. kr. eða svo af öðrum framkvæmdum og við þessar aðstæður eru menn að dæma jarðgöng á Austfjörðum úr leik. Það eiga þeir hv. þm. að vita sem eru utan af landi og styðja þessa ríkisstjórn.