Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:47:00 (792)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla að koma að þessu máli eiginlega frá hinum enda hins umrædda vegar yfir fjöllin milli Norðurl. e. og Austurlands en að mínu mati er vegarlagning þar yfir einhver brýnasta aðgerð í byggðamálum sem hægt er að ráðast í á næstunni og kannski, ef grannt er skoðað, ekki svo óskaplega kostnaðarsöm miðað við þá breytingu sem sú vegargerð gæti valdið. Ég bendi á að milli höfuðstaða Norðurlands og Austurlands, milli Akureyrar og Egilsstaða, eru ekki nema 280 km sem er ekki vegalengd sem mönnum vex í augum í dag ef menn eiga þess kost að ferðast um uppbyggða vegi og með bundnu slitlagi. Þess vegna hlýt ég að harma það ef hæstv. samgrh. hefur með gáleysislegum ummælum spillt fyrir framgangi þessa máls. Ég verð því að varpa því hér fram að ég hlýt að vona að það hversu slysalega tókst til með þessa yfirlýsingu hæstv. samgrh. komi ekki til með að spilla góðri samvinnu þingmanna Norðurlands og Austurlands við að hrinda þessu mikla framfaramáli í framkvæmd og að við getum unnið að því á þann veg að hægt verði að halda áfram síðar með Austfjarðagöng í þeirri samfellu sem rætt hafði verið um í fyrri vegáætlun.