Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:04:00 (800)

     Hjálmar Jónsson :
     Virðulegi forseti. Útvarpsráð er eins og allir væntanlega vita hér skipað af hinu þjóðkjörna Alþingi og er kveðið á um hlutverk þess í útvarpslögum og sérstakri reglugerð. Í störfum sínum fer útvarpsráð að sjálfsögðu eftir þessu. Þess vegna gefa fulltrúarnir kost á sér til starfans að þeir vilja sinna þessu hlutverki, eins og hæstv. menntmrh. hefur þegar sagt.
    Fram undan er, eins og þegar er fram komið, skipun nefndar af hálfu hæstv. menntmrh. til að endurskoða útvarpslög samkvæmt endurskoðunarákvæði í lögunum. Verði breyting á útvarpslögunum í kjölfar þess þá er það löggjafarsamkoman, þá er það Alþingi sem ákveður þá breytingu. Útvarpsráð mun þá að sjálfsögðu fara eftir þeim lögum.
    Ríkisútvarpið skiptir vissulega alla þjóðina miklu máli og því er nauðsynlegt að um það geti verið góður friður og það eflist og geti æ betur þjónað sínu mikilvæga hlutverki fyrir landsmenn alla. Fulltrúar í ráðinu taka, eftir því sem ég best veit og þekki ekki annað þar, hlutverk sitt alvarlega og vilja sinna því eftir bestu getu. Og þar er sannarlega friður milli manna.
    Ég harma afsögn fyrrv. formanns útvarpsráðs sem sinnti starfi af dugnaði og árvekni. Afsögnin er hins vegar orðinn hlutur og nú hefur hæstv. menntmrh. skipað mjög vel hæfa manneskju formann útvarpsráðs. Og vegna umræðu á hinu háa Alþingi í síðasta mánuði og reyndar aftur núna, þá vil ég geta þess að milli nýju fulltrúanna og menntmrh. er enginn trúnaðarbrestur, ég er miklu fremur trúnaðarprestur hæstv. menntmrh. í ráðinu.