Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:06:00 (801)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ástæða til þess að ræða málefni Ríkisútvarpsins ítarlega og mikið ítarlegar en kostur er á í utandagskrárumræðu. Ég tel þó ástæðu til að þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir að taka málið hér fyrir og sömuleiðis til að óska hæstv. menntmrh. til hamingju með það hvernig hann stóð að skipun útvarpsstjóra. Ég tel að ráðherrann hafi þar valið skynsamlega og vel og ég tel ástæðu til að þakka honum fyrir það af þessu tilefni.
    Mér þykir slæmt að hæstv. ráðherra gaf sér ekki tíma til að svara spurningum varðandi langbylgjustöðina sérstaklega, en ég vildi bæta við spurningu til hans: Hvernig hyggst hann skipa nefnd til þess að endurskoða útvarpslögin? Það liggja fyrir ekki færri en fjögur frumvarpsdrög í ráðuneytinu um breytingar á útvarpslögum, bæði varðandi hinn almenna ramma og eins hinar tæknilegu forsendur málsins. Ég tel að þar hafi verið mjög vel unnið, ekki síst í síðasta frv. sem samið var varðandi hinar tæknilegu forsendur, þar sem leiddir voru saman fulltrúar allra aðila, bæði Pósts og síma, Ríkisútvarpsins, Stöðvar 2 og annarra aðila sem þurfa auðvitað að ná saman um ný útvarpslög.

    Ég tel að það sé löngu tímabært að Alþingi kanni hvaða forsendur geta verið til þess að endurskoða útvarpslögin og breyta þeim. Ég tel að margt sem hefur komið í ljós sé með þeim hætti að það þurfi að breyta útvarpslögunum. Það þarf að skýra þau í ýmsum greinum, m.a. hinar tæknilegu undirstöður þeirra, þannig að ég tel að það sé full þörf á því að taka á því máli.
    Ég er þeirrar skoðunar að við endurskoðun útvarpslaga eigi menn að leggja áherslu á sjálfstæði Ríkisútvarpsins, að Ríkisútvarpið geti orðið t.d. sjálfseignarstofnun með svipuðum hætti og gerist í Noregi. Ég vil líka láta það koma fram hér, virðulegi forseti, að ég tel þá skipan sem nú er, að Alþingi kjósi eftirlitsmenn með útvarpinu, ekki skynsamlega. Ég tel langskynsamlegast að yfirmenn Ríkisútvarpsins séu ráðnir til takmarkaðs tíma í senn og lúti þannig almennum lýðræðislegum reglum, þeir séu skipaðir af ráðherra. Ég tel að það fyrirkomulag sem verið hefur varðandi útvarpsráð sé ekki skynsamlegt til mikið lengri tíma.