Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:11:00 (803)

     Össur Skarphéðinsson :
     Frú forseti. Gott er til þess að vita að hæstv. menntmrh. hefur nú eignast trúnaðarprest í útvarpsráði. Veit ég það að sá prestur er þannig vaxinn að þegar upp verður staðið þá mun menntmrh. ekki geta tekið undir með því sem segir í ljóðinu:
          Liðsemd prestarnir lögðu
          litla sem von var að.
    Það er auðvitað svo að hér hefur líka gerst dálítið merkilegur hlutur í þessari stuttu umræðu. Hv. þm. Svavar Gestsson og hæstv. menntmrh. Ólafur Garðar eru hér nákvæmlega sammála. Í fyrsta lagi óska þeir hvor öðrum til hamingju með skipan nýs útvarpsstjóra, og það er vel. En jafnframt eru þeir sammála að því er virðist um nauðsynlegar breytingar á Ríkisútvarpinu. Og til að fylla þessa þrenningu, þá tel ég að það sé mjög nauðsynlegt að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins og ég er líka alveg sammála því sem hér hefur komið fram, að mér fannst einnig hjá hæstv. menntmrh., að þessu pólitíska eftirlitsvaldi sem er með Ríkisútvarpinu þyrfti að linna. Ég tel að það sé brýnt og fyllilega tímabært.
    Það er mjög nauðsynlegt að efla Ríkisútvarpið með því að efla innlenda dagskrárgerð, bæði í útvarpi og sjónvarpi og ég vek eftirtekt á því að í hinni merku hvítu bók, sem gjarnan er til umræðu í þessum sölum, er lögð á það sérstök áhersla að gera það með útboðum. Ég tel að þar sé nokkurt nýmæli vegna þess að þar er sérstaklega nefnt hljóðvarpið. En þar hefur, að því er ég best veit, afar lítið verið unnin dagskrárgerð með útboði í þeim hluta Ríkisútvarpsins.
    Ég vil síðan þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að vekja hér athygli á því að það er mjög nauðsynlegt að efla það hlutverk Ríkisútvarpsins sem felst í því að veita öryggi og því nauðsynlegt að gera þessar breytingar á langbylgjusendingum útvarpsins sem hæstv. menntmrh. Ólafur Garðar hefur reyndar gert hér uppskátt að verið sé að ráða bót á.
    Síðan einungis að lokum: Það er auðvitað stefna Alþfl., eins og margoft kom fram í kosningabaráttunni, að aldrei verði Rás 2 seld.