Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:15:00 (805)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og það einnig að hann svaraði spurningu sem hann taldi út í hött þegar spurt var um trúnaðartraust á milli manna. Hæstv. ráðherra bregður greinilega ekki þó mannfall verði nokkurt. En hvað um það.
    Hér reis upp ágætur þingmaður og útvarpsráðsmaður, 2. þm. Norðurl. v., og gat um að það væri fullt trúnaðartraust til ráðherra af hendi útvarpsráðsmanna. En það þótti mér dálítið merkilegur hlutur, og nánast stórtíðindi, að fyrrv. og núv. menntmrh. sættust eiginlega hér í umræðum. En það gerðu þeir Heródes og Pílatus líka forðum, en tilefnið var ekki kannski mjög æskilegt þá.
    Mér verður hugsað til St. Jósefsspítalans þegar talað er um sjálfseignarstofnun og fyrirmynd í rekstri. Ég held ekki að hægt sé að segja að það sé slíkt fyrirmyndarform að það sé óalandi og óferjandi sem við höfum. Satt best að segja skil ég ekki það samdómaálit sem hér kom eiginlega fram að það væru vandræðamenn sem þingið væri að kjósa í þetta útvarpsráð. Það er nú einu sinni svo að hér eru saman komnir fulltrúar þjóðarinnar. Vissulega kosnir pólitískt. Það hefur ekki tekist að breyta því. En þeir reyna að kjósa menn í útvarpsráð sem þeir telja að hafi áhuga á útvarpinu og málefnum þess. Mér er ekki ljóst hvaða vandræðum þessir aðilar valda.
    Þess vegna bið ég menn að hugleiða það hvort ein af ástæðum fyrir því að það hefur verið þjóðarsátt um útvarpið sé ekki einmitt sú að útvarpsráð hefur unnið vel sitt verk á undanförnum árum, eins og aðrir sem að þessari stofnun hafa staðið.