Sementsverksmiðja ríkisins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:47:00 (812)

     Guðjón Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Þetta mun vera í fjórða skipti sem frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins er lagt fram á Alþingi. Fyrst var það lagt fram árið 1987 af þáv. hæstv. iðrnh., Friðriki Sophussyni. Eftir ábendingar og tilmæli ýmissa aðila, m.a. stjórnenda verksmiðjunnar, starfsmanna og bæjarstjórnar Akraness var frv. breytt nokkuð og það lagt fram í nóvember 1989 nokkurn veginn í þeirri mynd sem það er nú. Það hlaut þá afgreiðslu frá Ed. en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess frá Nd. fyrir þinglok. Frv. kom svo aftur fyrir á síðasta þingi en hlaut þar sömu örlög og ýmis önnur ágæt mál að daga uppi vegna þess hve þinghald var stutt vegna alþingiskosninga sl. vor. Þetta frv. fékk því mjög ítarlega athugun á Alþingi á síðasta kjörtímabili. Það fékk þá einnig, í þeirri mynd sem það er nú, jákvæða umsögn ýmissa þeirra sem var hafa sent til umsagnar, m.a. bæjarstjórnar Akraness, stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins og starfsmanna fyrirtækisins.
    Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegast sé að atvinnurekstur ríkisins sé í hlutafélagsformi. Með því verður reksturinn sveigjanlegri og ákvarðanataka stjórnenda fyrirtækisins léttari í vöfum. Þeir geta því tekið þær ákvarðanir sem þeir telja nauðsynlegar varðandi fjárfestingar og framkvæmdir með sama hætti og gert er í öðrum fyrirtækjum og þurfa ekki að leita til ríkisvaldsins með þær ákarðanir.
    Það er jákvætt í þessu frv. að félaginu er heimilað að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum og er hlutverk félagsins að því leyti víðtækara en hlutverk Sementsverksmiðjunnar er nú. Til þessa hefur Sementsverksmiðjan þurft sérstakt leyfi iðnrh. til að taka þátt í slíkum félögum og er fyrirtækið nú hluthafi í Speli hf., sem er undirbúningsfélag um jarðgöng undir Hvalfjörð. Einnig á Sementsverksmiðjan í félagi við Íslenska járnblendifélagið Sérsteypuna sf., sem annast þróunarverkefni varðandi aukið notkunarsvið steinsteypu jafnframt framleiðslu á ýmsum efnum úr sementi sem hafa fengið góðar viðtökur á markaðnum og er starfsemi þessa fyrirtækis, Sérsteypunnar, mjög athyglisverð.

    Í frv. er kveðið á um að fulltrúar hlutafélagsins skulu árlega halda tvo samráðsfundi með fulltrúum Akraneskaupstaðar til að ræða sameiginleg hagsmunamál. Þetta ákvæði er mjög jákvætt, bæði vegna þess að Sementsverksmiðjan er einn stærsti atvinnurekandi í bænum og ekki síður vegna þess að fyrirtækið stendur í hjarta bæjarins og þarna er um viðkvæman rekstur að ræða á slíkum stað og því nauðsynlegt að gott samband sé milli stjórnenda fyrirtækisins og bæjaryfirvalda. Verksmiðjan hefur á síðari árum gert átak í umhverfis- og mengunarmálum.
    Fyrir fimm árum voru teknir upp samráðsfundir milli bæjarráðs og stjórnar verksmiðjunnar og tókust þeir mjög vel og voru gagnlegir. Ákveðið var að halda þá árlega, en ekki hafa verið haldnir nema þrír fundir, fyrst árið 1986 og síðan 1988 og 1989. Það er því ágætt að ákveða það með jafnskýrum hætti og hérna er gert hvernig að þessu samráði skuli staðið.
    Í frv. er gert ráð fyrir að Sementsverksmiðjan greiði opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi. Það þýðir að í stað landsútsvars sem verksmiðjan greiðir í dag muni hún greiða aðstöðugjald, eignarskatt og vonandi tekjuskatt. Hv. 15. þm. Reykv. lýsti andstöðu sinni við þessa breytingu á skattgreiðslum verksmiðjunnar fyrr í þessari umræðu. Ég fagna því hins vegar sérstaklega að fyrirtækinu skuli gert að greiða aðstöðugjald til Akraneskaupstaðar og minni á að aðstöðugjaldstekjur bæjarins hafa verið mjög lágar í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög, ekki síst vegna þess að þetta annað stærsta fyrirtæki í bænum hefur greitt landsútsvar en ekki aðstöðugjald. Ég tel þetta ákvæði 9. gr. frv. því mjög jákvætt.
    Það kom einnig fram í máli hv. 15. þm. Reykv. að hún taldi Sementsverksmiðjuna hafa einokunaraðstöðu. Vegna þeirra ummæla er rétt að minna á að innflutningur á sementi er frjáls. Sá innflutningur hefur hins vegar ekki átt sér stað þar sem hann hefur ekki getað keppt við verð á íslensku sementi. Ég tel því að ótti hv. 3. þm. Vesturl. við hækkun sementsverðs verði verksmiðjan gerð að hlutafélagi sé ástæðulaus.
    Það er mjög mikilvægt í þessu frv. að réttindi starfsmanna eru vel tryggð. Í fyrsta lagi með því að fastráðnum starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar skal boðið sambærilegt starf hjá hlutafélaginu og þeir hafa gegnt til þessa. Í öðru lagi með því að tryggja lífeyrisréttindi þeirra starfsmanna sem eru í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og í þriðja lagi verður starfandi samstarfsnefnd starfsmanna og stjórnar.
    Sementsverksmiðja ríkisins hefur starfað á Akranesi í 33 ár. Verksmiðjan hefur verið mikilvægur hlekkur í atvinnulífi bæjarins allt frá því að bygging hennar hófst. Hún hefur einnig gegnt miklu hlutverki í byggingarsögu landsmanna allt frá því að hún tók til starfa. Fyrirtækið hefur jafnan haft gott starfslið og verið vel rekið. Áhersla hefur verið lögð á að bæta gæði framleiðslunnar, m.a. með því að blanda í sementið ryki frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga.
    Virðulegi forseti. Með samþykkt þessa frv. verða rekstrarskilyrði Sementsverksmiðjunnar samræmd því sem almennt gerist um stærri fyrirtæki hér á landi. Það er því von mín að frv. fái greiða afgreiðslu hér á Alþingi.