Sementsverksmiðja ríkisins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:01:00 (816)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka þann stuðning við frv. sem fram hefur komið í máli ýmissa þeirra sem talað hafa, m.a. hv. 2. þm. Vesturl. og hv. 5. þm. Vesturl.
    Vegna þeirrar spurningar sem 18. þm. Reykv. beindi til mín vil ég segja það alveg skýrt, eins og reyndar kemur fram í frv., að verði frv. samþykkt þá fer iðnrh. með eignarhlut ríkisins í félaginu sem er hið venjulega fyrirkomulag. Hann mundi meðan ríkið eitt á hlutina velja stjórnina eins og tíðkast þar sem svo stendur á í hlutafélögum og hann fer með atkvæði fyrir ríkið. Valið á stjórnarmönnum mundi að sjálfsögðu fyrst og fremst miðast við að þeir gættu hagsmuna félagsins, að þeir hefðu forsendur til þess að halda vel utan um rekstur svona félags.