Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:09:00 (819)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég koma því á framfæri að þær upplýsingar sem komu fram í Morgunblaðinu fyrir tveimur dögum frá Laugavegsapóteki eru rangar. Viðkomandi lyfjafræðingar hafa sent leiðréttingu til Morgunblaðsins. Þar kemur fram, eins og við þóttumst vita, að greiðslubyrði sjúklinga, elli- og örorkulífeyrisþega, hefur ekki hækkað umfram það sem gerist og gengur hjá öðrum eins og haldið var fram í fyrri greininni.
    Því er líka við að bæta að þarna vantar skoðun á því atriði sem var fyrst og fremst ætlað að koma til aðstoðar við þetta fólk, auk lyfjakortanna, en það voru sérstakar heimildaruppbætur frá almannatryggingum. Það hefur verið mikið um að þær hafi verið samþykktar, sérstaklega fyrir þetta fólk. Það kemur ekki fram í þessari skoðun. Í henni er því ekki sýndur nema hluti af heildarmyndinni.
    Í annan stað vil ég upplýsa það að Öryrkjabandalag Íslands hefur falið tveimur læknum að kanna sérstaklega lyfjakostnaðarmál öryrkja. Þessir læknar eru Haukur Þórðarson á Reykjalundi og Arinbjörn Kolbeinsson. Þeir eru ekki sammála áliti Sjálfsbjargar. Ég hef rætt við bæði framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins og annan af þessum tveimur læknum og þeir telja að niðurstaðan sé ekki sú úr sinni könnun sem kemur fram hjá Sjálfsbjörg að um sé að ræða mikinn viðbótarkostnað aldaðra og öryrkja vegna þessara breytinga. Þvert á móti geta þeir nefnt mörg dæmi um að lyfjakostnaður öryrkja hafi lækkað við breytingarnar og fjölmargir öryrkjar sem áður þurftu að borga fyrir lyfin sín fá þau nú algerlega sér að kostnaðarlausu. Auðvitað eru til dæmi um hið gagnstæða, þ.e. að öryrkjar sem áður borguðu tiltölulega lágt gjald borgi hærra. En þegar á heildina er litið eru þeir ósammála Sjálfsbjörg um hennar niðurstöðu.
    Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að svara svo umfangsmiklu máli á svo stuttum tíma en ég vil aðeins láta það koma fram að lokum að við erum búin að skoða þessi tíu dæmi sem tilfærð eru í bréfi Sjálfsbjargar. Við erum búin að óska eftir því að forráðamenn Sjálfsbjargar komi til viðtals við heilbrrn. Ég vil láta það koma fram í fyrsta lagi að sumt af því sem kemur fram í þessum dæmum eru beinlínis rangar verðupplýsingar. Í öðru lagi á viðkomandi einstaklingur í mörgum tilvikum rétt á lyfjakorti sem mundi undanþiggja hann greiðsluskyldu og þá einkum og sér í lagi í þeim dæmum sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hér áðan þar sem um mesta kostnaðarbreytingu hefur verið að ræða. Við þurfum að fá skýringu á því hvernig standi á því að viðkomandi sjúklingur hefur ekki lyfjaskírteini, hvort hann hafi ekki sótt um það eða af hvaða ástæðu honum kynni að hafa verið hafnað. Í þriðja lagi er það sameiginlegt álit landlæknis, heilbrigðisyfirvalda og þeirra tveggja lækna sem skoðuðu málið sérstaklega fyrir Öryrkjabandalag Íslands að ekki eigi að greiða niður úr ríkissjóði róandi lyf og svefnlyf nema í undantekningartilvikum, þ.e. þegar slík lyf eru notuð fyrir fólk sem á við geðræna sjúkdóma að stríða. Þegar ekki er um slíka aðila að ræða sem nýta slík lyf er það álit allra þessara þriggja aðila, landlæknis, heilbrrn. og þeirra tveggja lækna sem skoðuðu málið fyrir Öryrkjabandalagið, að ekki eigi að greiða slík lyf niður úr ríkissjóði.