Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:19:00 (822)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Ég hélt satt að segja að mér væri að misheyrast þegar ég heyrði hæstv. heilbrrh. segja í fréttatíma Ríkisútvarpsins sl. þriðjudagskvöld að þeir, sem væru ekki sáttir við nýju reglugerðina varðandi hækkun lyfja, væru að mylja undir þá sem neyttu vanabindandi lyfja. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi. Margt ófaglegt og ófyrirgefanlegt hefur flætt út úr heilbrrn. undanfarið en þetta sló öll önnur met. (Gripið fram í.) Fær hæstv. heilbrrh. ekki orðið hér á eftir? ( Heilbrrh.: Ég vil bara að leiðrétta strax að þú leggur ekki orð í minn munn.) Hæstv. heilbrrh. fær trúlega orðið hér á eftir, vona ég alla vega, en má ég halda áfram? Hæstv. heilbrrh. sagði blákalt að það væru fyrst og fremst þeir sem eru bundnir ávanalyfjum sem borga nú hærra verð. ( Heilbrrh.: Nei, það sagði ég ekki heldur.) Hæstv. heilbrrh. leiðréttir mál mitt hér á eftir ef hann telur þess þörf.
    Veit hæstv. heilbrrh. ekki betur um sína eigin reglugerðarsmíði eða kallar hann t.d. lyf sem lækna háan blóðþrýsting vanabindandi lyf? Kallar hann almenn þvagræsilyf vanabindandi lyf? Nú gerist hann mjög órólegur. Það er kannski í sambandi við blóðþrýstingslyfin. Veit hann t.d. að þessi tvö lyf hafa hækkað um meira en helming? Veit hann að hægðalyf sem kostaði áður 230 kr. fyrir skjúklinginn kostar nú um 7000 kr? Veit hann að gamalt og hreyfihamlað fólk hleypur ekki út að skokka sem forvarnaraðgerðir við meltingartruflunum? Gerir hæstv. heilbrrh. sér grein fyrir því hvað það kostar foreldra fatlaðra barna að nýta sér heilsugæsluþjónustu og göngudeildarþjónustu eftir þær hækkanir sem nú eru boðaðar? Ég held varla að hann geti gert sér grein fyrir því miðað við það sem hann hefur látið frá sér fara í þessum málum.
    Ég var satt að segja byrjuð að fyrirgefa hæstv. ráðherra allt ruglið í sambandi við þessa lyfjareglugerð en eftir að ég heyrði orð hans í Ríkisútvarpinu sl. þriðjudagskvöld þá skilst mér að hann ætlar ekki að leiðrétta það sem þarf að leiðrétta í þessari reglugerð.
    Hæstv. forseti. Ef sparnaður á að nást í heilbrigðismálum þarf að vinna faglega með fólkinu en ekki á móti fólkinu.