Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:25:00 (824)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Hann er dálítið sérstakur sá farvegur sem hæstv. heilbrrh. hefur valið til að halda þessari umræðu í um þessar drápsklyfjar sem hann lagði á gamalmenni, öryrkja og ellilífeyrisþega með reglugerðinni sem hann gaf út 1. júlí. sl. Nú fullyrðir hæstv. ráðherra það að lyfjakostnaður þessara hópa sé orðinn minni en hann var fyrir reglugerðarbreytinguna. Allar hafa þessar fullyrðingar verið hraktar. Og um leið og hann segir þetta og er bent á að það séu jú til hópar sem þetta hafi hækkað hjá, þá eru það bara allt saman einhverjir fíkniefnaneytendur sem þannig haga sér og það sé náttúrlega ekki rétt að vera að greiða lyf ofan í slíkt fólk. Það kann að vera alveg rétt, en ráðherrann þarf þá auðvitað að benda á það hvaða fólk það er sem þannig hagar sér.
    Það er mjög algengt að spastískir öryrkjar þurfi á róandi og vöðvaslakandi lyfjum að halda. Í dæmum Sjálfsbjargar er verið að taka dæmi af slíku fólki. Og ætlar ráðherrann að halda því fram að þarna sé um að ræða einhverja fíkniefnaneytendur? Þetta eru lyf sem þessu fólki eru alveg nauðsynleg.
    Læknastéttin hlýtur í ljósi þessara ummæla ráðherrans að krefjast þess að fram fari rannsókn á ummælum ráðherrans að það séu læknar í landinu sem í stórkostlega stórum stíl ávísi á lyf handa fíkniefnaneytendum. Ef ráðherrann hefur upplýsingar um slíkt hlýtur hann auðvitað að fara með þær til réttra yfirvalda. Það er ekkert hans prívatmál, ef hann veit um fíkniefnaneytendur í þessu landi, þá er það ekkert prívatmál hans. Hann á auðvitað að koma því til lögregluyfirvalda og láta fara fram rannsókn.
    Virðulegur forseti. Það eru aðrir en öryrkjar sem ráðherra þarf að hafa áhyggjur af að kunni að nota vímuefni.